Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vekur athygli á frétt á heimasíðu Interpol þar sem lýst er eftir íslenskum karlmanni, Stefáni Ingimar Koeppen Brynjarssyni, 48 ára.
Eftirlýsingin er birt að beiðni Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og er tilkomin vegna rannsóknar á innflutningi og dreifingu fíkniefna.
Þau sem geta veitt upplýsingar um Stefán Ingimar Koeppen Brynjarsson, ferðir hans eða dvalarstað, eru vinsamlegast beðin um að hafa samband við lögreglu í síma 444 1000, en upplýsingum má einnig koma á framfæri i tölvupósti á netfangið abending@lrh.is.
Árið 2019 birti DV yfirlit yfir Íslendinga sem sátu þá í fangelsum erlendis. Var Stefán einn þeirra. Stefán var handtekinn í Cancún í Mexíkó í október 2016 grunaður um fíkniefnasmygl. Fjallað var um handtöku hans í þarlendum fjölmiðlum en þar kom ekki fram hvers konar fíkniefni var um að ræða eða hversu mikið magn. Eftir handtökuna var Stefán fluttur í Cefereso-fangelsið í Perote. Í samtali við DV á þeim tíma sagðist Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn ekki kannast við málið og þá reyndist málið heldur ekki á skrá hjá borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins. Sagði í yfirliti DV árið 2019 að engar upplýsingar hafi borist um dóm yfir Stefáni og er því mögulegt að hann sé í haldi yfirvalda í Mexíkó. Það var þó ekki staðfest.
Sjá einnig: Þetta eru Íslendingarnir sem eru í fangelsum erlendis