Hópur karlmanna sem telur sig hlunnfarinn af genum og konum er sífellt að verða fyrirferðameiri á netinu. Þeir kalla sig incelsen hugtakið er samsetning orðanna involuntary og celibate, eða óviljandi skírlífir. Með þessu vilja þeir meina að þeir séu þvingaðir til skírlífis sökum þess að konur hafa ekki áhuga á þeim. Þessir menn segjast einmana, en að það sé ekki þeim að kenna heldur kröfuhörðum konum sem vilja bara hávaxna, herðabreiða töffara eða svokallaða alphas. Fyrir þetta leggja þeir fæð á konur, sérstaklega á kynfrelsi þeirra, enda sé hlutskipti þeirra konunum að kenna sem séu fégráðugar og yfirborðskenndar. Fyrir þetta telja þeir að konum beri að refsa, með því að svipta þær kynfrelsinu og jafnvel svipta þær lífinu sjálfu.
Hreyfing incela er öfgahreyfing kvenhaturs sem er keyrð áfram af einni erfiðustu tilfinningunni sem mannfólk upplifir, ítrekaða höfnun. Þessir drengir og menn koma saman á spjallsvæðum á netinu þar sem þeir hvetja hvern áfram í hatrinu. Þetta hefur ítrekað leitt til hörmunga. Þar sem hreyfingin er almennt talin hatursfull og hættuleg hafa miðlar ítrekað úthýst spjallsvæðum hreyfingarinnar.
Það fer þó vel um incelana í íslenska netheiminum. Spjallvefur þeirra hefur nú endinguna .is en vefurinn incels.is er skráður hjá ISNIC. Kemur fram í skráningu að rétthafi er einstaklingur sem er skráður í Bandaríkjunum en hýsingin er í gegnum CloudFlare sem er skráð í borginni San Francisco. Síðan var skráð í september árið 2018.
Má þar finna spjall sem er uppfyllt af kvenhatri sem og örvæntingarfullum reiðifyrirlestrum karla sem finnast hlutskipti sitt ósanngjarnt. Minnst þrír notendur eru íslenskir. Ekki hafa incelar þó mikinn áhuga á Íslandi, því þó að konur séu fallegar hér þá hafi þær fengið alltof mikið af réttindum og séu alltof frjálslyndar hvað kynlíf varðar. Þar að auki séu íslenskir karlmenn ljóshærðir á hávaxnir víkingar, sem sé vonlaust að keppa við.
„Íslenskir menn hafa verið kvengerðir og lifa nú til að þjóna konum. Þeir hafa verið ræktaðir þannig af konunum þeirra. Tölfræðilega eru íslenskar konur lauslátustu konur Evrópu, og það sést. Fólkið er fallegt og mennirnir hávaxnir, en þeir eru þræla kvenna. Konurnar hafa ræktað mennina svo þeir verði undirgefnari og myndarlegri,“ skrifar einn incel um Ísland.
Myndbandi af íslenskum stúlkum var eins deilt í hópinn og mátti þar finna skuggalegar athugasemdir á borð við þessi um eina stúlkuna í myndbandinu: „Hún virðist svo saklaus að ég hata hana, hún er pottþétt rosaleg drusla samt. Myndi elska að sjá hana enda í hjólastól.“
Annar deilir því að líklega séu incelar fleiri á Íslandi en séu of heilaþvegnir af ríkisstjórninni til að átta sig á því.
„Landið sem ég fæddist í, Ísland, er líklega með fullt af incelum sem eru of heilaþvegnir af ríkisstjórninni til að átta sig á því. Flestir íbúar landsins eru frekar myndarleg svo ef þú ert meðalmaður áttu erfitt með að finna einhvern. Ég átti ekki séns þarna, og ég á enn ekki séns í Bandaríkjunum. Ég er allt öðru stigi af ljótleika en flestir incelarnir hér á svæðinu.“
ISNIC hefur áður staðið fyrir svörum þegar erlendir öfgahópar skrá vefsíður sínar á Íslandi. Fyrirtæki geti lítið annað gert en að fylgja því eftir hvort skráning sínu sé rétt og í raun geti hvers sem er náð sér í .is lén. Þó þegar hryðjuverkasamtökin Íslamskt ríki skráði vef sinn hér árið 2014 ákvað ISNIC að loka lénunum, en þetta var í fyrsta sinn sem fyrirtækið réðst í slíka aðgerð.
Eins og áður segir hafa margir sem tilheyra þessari haturshreyfingu framið ódæðisverk. Má sem dæmi nefna morðin í Isla Vista árið 2014. Þar myrti hinn 22 ára gamli Elliot Rodger sex einstaklinga og særði 14 til viðbótar. Fyrst stakk hann þrjá til bana í íbúð sinni en næst ók hann á heimavist kvenkyns nemenda við Háskólann í Kaliforníu þar sem hann skaut tvær til bana og særði eina. Eftir það ók hann um bæinn Isla Vista og skaut á vegfarendur áður en hann lenti í skotbardaga við lögreglu áður en hann svipti sig lífi. Áður en Elliot hélt að heimavistinni birti hann myndband á YouTube þar sem hann sagði frá áformum sínum og hvers vegna hann gerði þetta. Hann væri að refsa konum fyrir að hafna honum. Hann væri eins að refsa karlmönnum sem væru kynferðislega virkir, því hann öfundaði þá.
Svo má nefna Brian Isaack Clyde. Hann gekk í herinn sem táningur og þjónaði þar sem fótgönguliði um skamma hríð. Hann hlaut svo lausn frá störfum um tvítugt, og hafði aldrei verið sendur á átakasvæði. Vera hans í hernum kveikti þó sjúkan áhuga á skotvopnum og nú þegar Brian hafði tíma til að hanga á Internetinu öllum stundum komst hann í kynni við incel-hreyfinguna tók upp öfgafullar skoðanir hópsins. Rannsóknaraðila telja að Brian hafi í raun fallið ofan í hatursfulla gryfju á internetinu þar stöðugt var predikað að eina leiðin fyrir incel menn til að setja mark sitt á heiminn væri með því að svipta aðra lífi. Þann 17. júní 2019 barst lögreglu tilkynningu um vopnaðan mann við dómshús í Dallas. Hann hleypti ítrekað af vopni sínu, en engan sakaði, hvorki. Brian neitaði að leggja niður vopn þegar lögreglu bar að garði og var því skotinn til baka. Fjölskylda hans telur að þetta hafi í raun verið sjálfsvíg fyrir tilstuðlan lögreglu.
Þó Brian hafi engan sakað varð mál hans til þess að flugherinn í Maryland kom á skyldufræðslu herlið sitt um hættumerkin þegar innhverfir einstaklingar með óvirkt kynlíf sogast inn í incel-hreyfinguna.
Annað dæmi er skotárás á útsölumarkað í Texas á seinasta ári. Þar létu níu lífið, yngsti var aðeins þriggja ára, og þrír særðust. Þar var á ferð hinn 33 ára Mauricio Martinez Garcia. Hann tilheyrði mörgum öfgahópum, svo sem þjóðernissinnum, nýnasistum og svo incel-hreyfingunni.