Guðmundur gerði umræðu í Silfrinu á mánudagskvöld að umtalsefni í umræðum um störf þingsins á Alþingi í gær. Þeir sem þar voru hafi allir virst vera á því að þeir getu fengið heimilislækni ef þeir þyrftu á að halda.
„En ég er búinn að vera að hitta fólk sem fór til heimilislæknis og ætlaði að reyna að fá tíma. Það tók ekki vikur, það tók mánuði að fá tíma hjá heimilislækni,“ sagði Guðmundur Ingi og bætti við að þegar viðkomandi komst loksins til heimilislæknis hafi skilaboðin verið á þessa leið:
„Þú þarft að fara til sérfræðings, þú ert alvarlega veikur. Hvað tók þá við? Jú, þrisvar til fjórum sinnum lengri bið eftir sérfræðingnum heldur en var beðið eftir heimilislækni. Þegar viðkomandi fékk loksins tíma hjá sérfræðingnum, hvað skeði þá? Sérfræðingurinn horfði á viðkomandi og sagði: Heyrðu, af hverju komstu ekki fyrir löngu síðan? Þú ert á síðasta snúning til að fá lækningu. Viðkomandi var að verða fyrir tjóni, líkamlegu og heilsufarslegu tjóni, vegna þess kerfis sem við höfum byggt upp, sem ríkisstjórnin ber ábyrgð á,“ sagði hann í ræðu sinni.
Spurði hann að lokum hvort ekki væri kominn tími til þess að ríkisstjórnin hysjaði upp um sig buxurnar og sjái til þess að þeir sem þurfa heilbrigðisþjónustu á Íslandi fái hana.