Þetta kemur fram í uppfærslu Veðurstofu Íslands um stöðuna á Reykjanesskaga eftir kvikuhlaup í nágrenni Hagafells um helgina.
Veðurstofan telur líklegast að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Bent er á að gos gæti hafist með mjög stuttum fyrirvara, jafnvel innan við 30 mínútna.
Að sögn Veðurstofunnar sýna líkanreikningar að það magn kviku sem hljóp á laugardaginn úr Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðinni hafi verið um 1,3 milljónir rúmmetra.
„Áður var búið að reikna út að um hálf milljón rúmmetra af kviku safnist fyrir undir Svartsengi á sólarhring. Að öllu óbreyttu verður heildarmagn kviku undir Svartsengi orðið um 9 milljónir rúmmetra í lok dags á morgun, þriðjudag,“ segir Veðurstofan.
Bent er á að í fyrir atburðum hafi kvika hlaupið þegar heildarmagn kviku sem safnast hefur undir Svartsengi er á bilinu 8 til 13 milljónir rúmmetra. Því eru auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og eldgosi þegar því magni hefur verið náð. Miðað við þetta gæti dregið til tíðinda á allra næstu dögum.
„Það má hins vegar benda á að eftir endurtekin gos í Fagradalsfjalli þá voru dæmi um að kvika læddist upp á yfirborðið án mikillar skjálftavirkni. Reikna þarf með að það gæti orðið þróunin með virknina á Sundhnúksgígaröðinni,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.