Útibú Pizzunnar við Fellsmúla opnaði dyr sínar að nýju í gær eftir stórbrunann sem varð í húsalengjunni þann 15. þessa mánaðar og hefur brunalyktin nú vikið fyrir ljúfum ilmi af nýbökuðum pizzum.
Axel Birgisson, markaðsstjóri Pizzunnar, segir að síðustu tvær vikur hafi verið sannkölluð rússíbanareið fyrir starfsfólk og aðstandendur staðarins.
„Við vorum hérna á staðnum þegar eldsins varð vart og fyrst um sinn leit þetta afar illa út,” segir Axel.
Slökkviliðsmenn og aðrir viðbragðsaðilar hafi hins vegar unnið þrekvirki við að ráða niðurlögum eldsins og þegar slokknaði í síðustu glæðunum hafi bjartsýni ríkt um að veitingastaðurinn hefði sloppið vel frá hildarleiknum. Annað kom þó á daginn.
„Þegar við fórum að taka dótið okkur út af staðnum komu vatns- og reykskemmdirnar í ljós sem voru mun umfangsmeiri en við höfðum gert okkur grein fyrir. Stóra vandamálið var brunalyktin sem var yfir öllu rýminu og er frekar óheppileg við veitingarekstur,” segir Axel.
Þá var blásið í herlúðra og öflugur hópur faglærðra iðnaðarmanna mætti á staðinn og tóku til hendinni.
„Við ákváðum í raun að nýta þetta sem tækifæri og erum afar ánægð með hvernig til hefur tekist. Í raun og veru erum við að opna nýjan og endurbættan stað og bjóðum nýja sem eldri viðskiptavini hjartanlega velkomna,” segir Axel.
Í tilefni af opnuninni verða hagstæð tilboð í boði fyrstu þrjá dagana, fimmtudag til laugardags.