Þórólfur er í viðtali í Morgunblaðinu í dag í tilefni þessara tímamóta.
Þó að fjögur ár séu liðin síðan fyrsta smitið greindist er veiran enn úti í samfélaginu. Hún hefur tekið talsverðum breytingum og þá er búið að bólusetja meirihluta landsmanna. Hún veldur því ekki jafn alvarlegum sýkingum og fyrst þó hún geti verið hættuleg þeim sem eru viðkvæmir fyrir.
Þórólfur segir við Morgunblaðið að áfram verði líklega um að ræða veirusýkingu sem kemur reglulega upp, oftar en ekki yfir vetrartímann og valda mismiklum einkennum.
Þórólfur segir að kórónuveirufaraldurinn sem fór af stað í ársbyrjun 2020 sé ekki sá síðasti sem mun ríða yfir. Mikilvægt sé að við drögum lærdóm af faraldrinum, hvernig brugðist var við og hvernig við ætlum að bregðast við þegar næsti faraldur kemur.
„Það mun gerast og við höfum sem dæmi búist við því að einhvern tíma muni koma nýr heimsfaraldur af inflúensu. Einhvern tíma mun það gerast en auk þess geta komið nýjar veirur eins og gerðist með covid-19. Það virtist ekki á sjóndeildarhringnum að við myndum fá heimsfaraldur af völdum þessarar veiru. Við þurfum að vera tilbúin þegar þetta gerist aftur. Við þurfum að vera með einhverjar áætlanir í gangi rétt eins og vegna jarðhræringa og eldgosa,“ segir Þórólfur við Morgunblaðið í dag.