fbpx
Laugardagur 24.maí 2025
Fréttir

Margir reiðir vegna frumvarps um „fangabúðir“ – „Þið eru djöfulsins fasistar og ættuð að skammast ykkar“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 21. febrúar 2024 14:29

Guðrún telur að hægt verði að taka við um 500 hælisleitendum á ári.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölmargar athugasemdir hafa borist í Samráðsgátt stjórnvalda vegna frumvarps dómsmálaráðherra um lokað búsetuúrræði. Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að vista útlendinga í lokaðri búsetu þegar tryggja þarf návist útlendings vegna framkvæmdar ákvörðunar um að hann skuli yfirgefa landið og þegar mál sem getur leitt til slíkrar ákvörðunar er til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Á vef Stjórnarráðsins kemur fram að með frumvarpinu sé verið að hverfa frá framkvæmd gildandi laga sem kveða á um að heimilt sé að handtaka útlending í þessari stöðu og færa í gæsluvarðhald. Þá kemur fram að vistun í lokaðri búsetu samkvæmt frumvarpinu verði eingöngu beitt sem síðasta úrræði og þegar ljóst er að vægari úrræði muni ekki skila árangri.

„Frumvarpið kveður á um að óheimilt verði að vista fylgdarlaus börn í lokaðri búsetu. Það verður því eingöngu heimilt að vista börn í lokaðri búsetu þegar þau eru í fylgd með foreldri eða umsjónarmanni. Ríkari kröfur eru gerðar til vistunar barna í lokaðri búsetu. Felst það meðal annars í því að strangari kröfur eru gerðar til mats á nauðsyn þess að vista barn auk þess sem gæta þarf meðalhófs við ákvarðanatöku,“ segir á vef Stjórnarráðsins.

Fangabúðir ekki góð lausn

Ef marka má umsagnir í Samráðsgátt ríkir talsverð óánægja með frumvarpið meðal þeirra sem hafa tjáð sig. Þar hafa bæði einstaklingar og samtök, til dæmis Mannréttindaskrifstofa Íslands, Barnaheill, UNICEF og Þroskahjálp, tjáð sig.

„Ætliði virkilega að reisa hér fangabúðir með tilheyrandi kostnaði? Hvað með að skaffa þessu fólki einfaldlega vernd? Þið eru djöfulsins fasistar og ættuð að skammast ykkar,“ segir í einni athugasemd.

Í annarri segir:

„Fangabúðir á íslenskri grund eru ekki lausn sem er mér að skapi, nær væri að Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn og Vinstri grænir beittu sér frekar að koma í veg fyrir það að fólk yfir höfuð þurfi að leggja á flótta frá sínu landi. Nýjasta dæmið hjáseta Íslands hjá Sameinuðu Þjóðunum varðandi Palestínu.“

Einn segir að um sé að ræða fordómafullt og ómannúðlegt frumvarp sem veitir löggæslu ríkisins óhófleg völd. „Ísland er ekki lögregluríki og það á ekki að ýta undir þá þróun,“ segir viðkomandi.

„Þetta frumvarp er til skammar og ætti að vekja óhug hjá hverjum þeim sem situr í ríkisstjórn. Slíkar ómannúðlegar aðferðir, frelsissvipting og vanvirðing á mannréttindum vekja hræðslu hjá okkur sem viljum ekki lifa við fasisma. Sagan mun dæma ykkur kæru ráðherrar,“ segir svo enn annar.

Annar segir að fyrirhugað frumvarp sé fordæmalaust á Íslandi og úr takti við mannúðar- og mannréttindasáttmála og yfirlýsingar sem Ísland hefur skrifað undir.

UNICEF hefur áhyggjur af börnunum

„Með þessu frumvarpi er þjóðarviljinn, mannréttindi og öll undirstaða íslenskrar manngæsku sem friðarleitandi og mannsæmandi þjóð kastað á glæ. Að leggja fram tillögu sem þessa stofnar lýðræði og mannréttindum í verulega hættu og gerir Ísland að lögreglu og forræðishyggjuríki, líkt og sjá má í Kína og Bandaríkjunum. Fangabúðir fyrir flóttafólk og misbeiting valds er ekki ásættanlegur raunveruleiki.“

Einn gagnrýnir titil frumvarpsins í sinni athugasemd. „Hér er einfaldlega um fangabúðir fyrir útlendinga að ræða. Ef einhver velkist í vafa um það, þá er beinlínis talað um fangaverði í frumvarpinu, og í fjölmörgum tilfellum vísað í lög um fangelsi. Ef þetta er „lokað búsetúrræði“ þá gildir það líka um Litla Hraun.“

UNICEF gerir athugasemdir við þann hluta frumvarpsdragnanna sem snýr að börnum og mannréttindum þeirra. Bendir UNICEF á það að samkvæmt drögunum verði heimilt að hneppa börn í fylgd forsjáraðila í varðhald í þrjá til níu sólarhringa áður en þau yfirgefa landið. Hugtakið „lokað búsetuúrræði“ sé notað um það sem ekki verður skilgreint öðruvísi en varðhald þar sem framkvæmdin er á höndum ríkislögreglustjóra og starfsfólk úrræðisins eru fangaverðir.

„UNICEF vinnur að því með stjórnvöldum um allan heim að stöðva varðhald á börnum á grundvelli stöðu þeirra sem útlendingar. Íslensk stjórnvöld hafa hingað til getað státað sig af því að hneppa aldrei börn í varðhald og væri það veruleg afturför á stöðu mannréttinda ef lög um slíkt yrðu samþykkt.“

Hægt er að lesa umsagnir um frumvarpið hér.

Hér má kynna sér frumvarpið í heild sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt