Dagbladet skýrir frá þessu og segir að fram að þessu hafi fyrirkomulagið verið þannig að menn eru kvaddir til herþjónustu með því að senda þeim bréf upp á gamla mátann. Mörgum hefur tekist að komast úr landi eftir að hafa fengið slíkt bréf, því ekkert sameiginlegt kerfi er notað til að halda utan um nöfnin. Þess vegna hefur ekki verið hægt að stöðva menn á leið úr landi.
Samkvæmt opinberum tölum hafa 300.000 menn verið kvaddir í herinn og sendir til Úkraínu.
Með nýja stafræna kerfinu verður auðveldara fyrir yfirvöld að fylgja herkvaðningu eftir. Kerfið á að vera tilbúið til notkunar í haust. Það mun hafa í för með sér að um leið og rússneskur maður hefur móttekið herkvaðningarbréf sitt á stafrænu formi, er honum óheimilt að yfirgefa landið. Tækifærið verður einnig notað til að herða refsingar yfir þeim sem reyna að komast hjá herþjónustu.
Eftir að kerfið verður tekið í notkun verður meðal annars hægt að loka bankareikningum manna ef þeir reyna að komast hjá herþjónustu, svipta þá ökuréttindum og jafnvel ríkisborgararétti.
En hönnun nýja kerfisins gengur þó ekki vandræðalaust. Það er rússneska fyrirtækið Rostelekom sem sér um smíði kerfisins. Talsmaður þess viðurkenndi í samtali við miðilinn Meduza að „þetta sé mikill höfuðverkur“.
Pútín hefur einnig krafist þess að vinnuveitendur geti sett upplýsingar um karla á „bardagaaldri“ inn í kerfið.
Þegar Pútín tilkynnti að hann bjóði sig fram til forseta í kosningunum, sem fara fram í næsta mánuði, lofaði hann að ekki verði gripið til nýrrar herkvaðningar. Líklega má tengja flýtinn við smíði nýja kerfisins við þetta loforð, því með nýja kerfinu verður hægt að kalla menn á herskyldualdri til herþjónustu með skilvirkari hætti en áður og láta líta út fyrir að það sé ekki gert sérstaklega vegna stríðsins í Úkraínu.