Ísland vann góðan sigur á spútnikliði mótsins, 26-24, en hefði þurft að vinna með fimm marka mun til að komast í umspil fyrir Ólympíuleikana í sumar. Útlitið var bjart í hálfleik þegar ísland var sex mörkum yfir en liðið byrjaði seinni hálfleikinn illa en vann að lokum tveggja marka sigur.
Leikmenn liðsins voru eðlilega svekktir í leikslok en kannski var enginn svekktari en markvörðurinn frábæri, Viktor Gísli Hallgrímsson, sem átti heilt yfir mjög gott mót með íslenska liðinu. Beygði Viktor Gísli af í viðtali við RÚV eftir leik og gat ekki falið vonbrigði sín.
Gunnar Smári tjáði sig um þetta á Facebook eftir leik í gær og vakti færsla hans töluverða athygli.
„Grey leikmennirnir eru dregnir í gegnum svipugöng og látnir játa á sig allskyns syndir milli þess sem skipt er yfir draugfúlt fólk í stúdíói að dæsa af vonbrigðum. Þetta er farið að minna á kosningavöku Samfylkingarinnar 2016 eða útsendingar Norður-Kóreska sjónvarpsins daginn sem Kim Jong Il dó,“ sagði Gunnar Smári og tóku ýmsir undir með honum.
RÚV birti einnig viðtalið við Viktor Gísla á Facebook-síðu sinni og þar voru margir sem sendu honum góðar og kærar kveðjur. „Geggjaður markmaður sem á eftir að verða einn sá besti í heimi,“ sagði til dæmis einn.