Þann 30. janúar næstkomandi verða réttarhöld í Héraðsdómi Reykjavíkur gegn einum af þremur mönnum sem misþyrmdu manni í undirgöngunum hjá versluninni Iceland í Vesturbergi, aðfaranótt laugardagsins 13. apríl árið 2019.
Einn maður er ákærður en tveir árásarmenn hafa aldrei fundist. Maðurinn er ákærður fyrir stórfellda líkamsárás en mennirnir þrír veittu brotaþola ítrekuð högg og spörk í höfuð og búk, og slógu hann að minnsta kosti einu sinni með óþekktu vopni eða áhaldi.
Fyrir utan áverka voru afleiðingar árásarinnar þrátlát einkenni áfallastreituröskunar, m.a. mikill ótti og kvíði, tilfinningadoði og fælni, þrálát og mikil einkenni heilaskaða, meðal annars minnisleysi, einbeitingarerfiðleikar, tjáningarerfiðleikar, framtaksleysi og óvirkni.
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Fyrir hönd brotaþola er krafist miskabóta upp á fimm milljónir króna.