Hann ræddi nýlega við franska dagblaðið Le Monde um stríðið en nú eru tæp tvö ár síðan Rússar réðust inn í Úkraínu og töldu sig eiga sigurinn vísan á nokkrum dögum. En þess í stað mættu þeir harðri mótspyrnu Úkraínumanna og hafa ekki náð þeim árangri sem þeir væntu. Líklega hafa mörg hundruð þúsund manns látist vegna stríðsátakanna og ekki er að sjá að þeim fari að ljúka.
Í viðtalinu varar Budanov meðal annars við þeirri stríðsþreytu sem er farið að gæta á Vesturlöndum. „Þeir sem eru þreyttir á stríðinu, verða að búa sig undir að gefast upp fyrir Rússum þegar þeir hertaka lönd þeirra,“ sagði hann og hvatti Vesturlönd til að halda áfram hernaðarstuðningi við Úkraínu.
Hann lagði einnig áherslu á að sá tími sé ekki runninn upp að hægt sé að hefja friðarviðræður við Rússa. „Samningaviðræður geta hafist þegar báðir aðilar hafa áhuga á því. Sú staða er ekki uppi núna,“ sagði hann.
Hann ræddi einnig um það sem hann kallar rússnesku þversögnina. „Sérstök rússnesk þversögn hefur komið mér á óvart. Allir héldu að Moskva væri með sterkan her og veikan efnahag. En það hefur sýnt sig að þessu er öfugt farið. Það getur verið að efnahagslífið hiksti en það er ekki þannig að Rússar svelti. Víðs fjarri því,“ sagði hann.
Út frá þessu sagðist hann telja að refsiaðgerðir Vesturlanda hafi ekki skila tilætluðum árangri og hvatti þau til að herða þær enn frekar og þrengja að rússneska bankakerfinu.
Hvað varðar gang stríðsins sagði hann að tvær ástæður séu aðallega fyrir því að staðan á vígvellinum hafi ekki breyst mikið á síðasta ári. Önnur þeirra er mikil notkun árásardróna sem hafi gert báðum aðilum ókleift að sækja fram. Hin er að mikið hafi verið notað af jarðsprengjum, viðlíka notkun hafi ekki sést síðan í síðari heimsstyrjöldinni.
Hann sagðist bjartsýnn á að stríðsgæfan snúist Úkraínu í vil á þessu ári. Á síðasta ári hafi Úkraínumenn gert fyrstu árásina á hinn hertekna Krímskaga og er það aðeins upphafið sagði hann.