Karlmaður hefur verið dæmdur í 18 mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa nauðgað þáverandi vinkonu sinni aðfaranótt gamlársdag 2021. Dómurinn féll þann 11. september hjá Héraðsdómi Reykjaness.
Málsatvikum er lýst svo að konan, þolandinn í málinu, hafi verið stödd hjá félaga sínum eftir kvöld að drykkju. Varð hún þar ein eftir með félaganum og sameiginlegum vini þeirra, ákærða í málinu. Ákærði og félaginn voru ekki undir áhrifum áfengis en konan hafði drukkið töluvert. Ákærði játaði tilfinningar sínar til vinkonu sinnar þetta kvöld, en hún hafði ekki tekið vel í það og tilkynnt honum að hún hefði engan áhuga.
Þau hafi þrjú komið sér fyrir í tungusófa heima hjá sameiginlega félaganum og konan hafi þar sofnað. Daginn eftir hafi hún vaknað og var þá í öfugum nærbuxum. Félaginn hafi þá látið ákærða játa hvað hafði átt sér stað um nóttina og ákærði grátandi gengist við því að hafa stungið fingri í leggöng konunnar og veitt henni munnmök. Vildi ákærði meina að þetta hefði verið að frumkvæði konunnar sem hafi verið gröð og beðið hann um að snerta sig. Konan fékk töluvert áfall við þetta, enda mundi hún ekkert eftir þessu, og átti í miklum samskiptum við ákærða í gegnum smáskilaboð næstu daga til að reyna að átta sig á atvikum.
Meðal annars bar hún undir ákærða hvort hann teldi sig hafa brotið gegn henni og hann svarað því játandi. „Þetta er fokking messed up hvað ég gerði við fokking bestu vinkonu mína þess vegna er ég að leita mér hjálpar.“ Bað hún hann að útskýra nánar hvað hann meinti og vísaði hann þá til þess að hafa stungið fingrum í leggöng hennar og næstum haft við hana samfarir. Hún tilkynnti honum þá að þar sem hún var sofandi þá teldist þetta nauðgun.
Ákærði sagði í kjölfarið að orðið á götunni væri að hann hefði nauðgað henni en það væri ekki rétt. Hún hafi verið vakandi, með opin augun og haft frumkvæði að atlotunum. Þetta tók konan ekki undir.
Félaginn sem var viðstaddur þegar brotið átti sér stað greindi frá því að hann hafi heyrt hljóð í sófanum og þá litið við og sé að ákærði var að eiga við konuna. Hafi ákærði boðið félaganum að taka þátt og félaginn þá forðað sér inn í herbergi en komið svo aftur fram og er ákærði bað um smokk hafi félaginn hent ákærða út úr íbúð sinni og bent honum á að konan væri sofandi. Ákærði hafi grátið er hann yfirgaf íbúðina.
Fleiri vitni voru leidd fram fyrir dómi sem ýmist vitnuðu um ástand konunnar þetta kvöld, en hún þótti verulega drukkin á meðan ákærði var allsgáður. Konan hafi lýst atvikum með sama hætti við flesta sem hún hafi rætt við og ákærði þar að auki rætt við kunningja og viðrað þar þann möguleika að hann yrði kærður fyrir hátternið og sagðist sjá eftir háttseminni.
Dómari taldi að ákærði hafi með framkomu sinni eftir umrædda nótt gefið kynna að hann teldi sig hafa brotið af sér. Hann hafi síðar reynt að fegra hlut sinn með því að halda því fram að konan hafi verið vakandi. Eins hafi félagi hans hent honum út sem gefi til kynna að hegðun ákærða hafi verið óviðeigandi. Konan hafi ekkert gert til að gefa til kynna að hún hefði kynferðislegan áhuga á ákærða eða að hún væri fús til að eiga við hann kynmök. Hann hafi því látið sér í léttu rúmi liggja hvort samþykki konunnar til kynferðismaka væri til staðar. Framburður ákærða um atvik væri ótrúverðugur í ljósi framburða vitna og því væri það hafið yfir skynsamlegan vafa að hann hafi gerst sekur um nauðgun með því að hafa notfært sér ástand konunnar til að hafa við hana samræði eða önnur kynferðismök þegar hún gat ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans.
„Ljóst er að sofandi manneskja er hvorki fær um að veita samþykki né sporna við kynferðismökum“