fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Fréttir

Krikketsamband Íslands býðst til að halda risamót – Segjast hafa ásetning og aðdáendur

Kristinn H. Guðnason
Fimmtudaginn 30. nóvember 2023 11:30

Íslenska landsliðið á Víðisstaðatúni í Hafnarfirði þar sem flestir leikirnir eru spilaðir. Mynd/Krikketsamband Íslands

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Krikketsamband Íslands hefur sent inn formlega fyrirspurn til alþjóða krikketsambandsins, ICC, um að halda risamótið Champions Trophy. Á mótinu spila bestu lönd heims í tveimur riðlum og útsláttarkerfi.

ICC Champions Trophy var stofnað árið 1998 og er ætlað til þess að safna fé fyrir krikketiðkun í þjóðum sem hafa ekki mikla hefð fyrir íþróttinni. Mótið hefur verið haldið átta sinnum og það næsta er árið 2025.

Sigurvegarar mótanna hafa verið Ástralar, Nýsjálendingar, Suður Afríkumenn, Vestur Indíumenn, Indverjar, Sri Lankamenn og Pakistanar sem eru núverandi meistarar. Síðasta mót var haldið í Englandi og Wales.

Bjartsýni og áhugi

Áætlað er að Pakistanar haldi næsta mót en vegna alþjóðadeilna þeirra við Indverja er líklegt að mótið verði fært annað. Indverjar leyfa ekki landsliði sínu að spila í Pakistan.

Rætt hefur verið um að mótið verði haldið í fleiri en einu Asíulandi til þess að indverska liðið þurfi ekki að fara til Pakistan. En Krikketsamband Íslands telur sig hafa betri lausn á deilunni.

„Krikketsamband Íslands vill formlega lýsa yfir áhuga á að halda Champions Trophy árið 2025, sem var áætlað að spila í Pakistan í febrúar og mars það ár. Við erum að bregðast við, af mikilli bjartsýni og áhuga, þeim orðrómi að mótið verði ekki spilað í Pakistan vegna áhyggja eins sambands um pólitíska og öryggisgæslu áhættu,“ segir í yfirlýsingu þess.

Og enn fremur:

„Við höfum heyrt að það standi til að halda blandað mót. Þó það sé öllum óljóst hvað það þýði í raun, þá túlkum við það svo að þetta sé ákall til okkar í landi elds og íss að bjóðast til að halda mótið. Við höfum ásetning, aðdáendahóp og nægt land til þess að halda þetta frábæra mót.“

Veðráttan léleg en nægt rafmagn

Viðurkennt er að hitastigið sé ekki æskilegt á Íslandi á þessum árstíma. En sambandið telur sig geta leyst það mál með rafmagnsofnum. Hér sé nægt rafmagn.

Krikketsamband Íslands var stofnað árið 2000 og í dag keppa fjögur lið í úrvalsdeildinni. Reykjavík Vikings, Kópavogur Puffins, Hafnarfjörður Hammers og Vesturbær Volcano. Áður hafa verið til lið í Garðabæ, Seltjarnarnesi og í Stykkishólmi.

Haldin eru sjö mót og flestir leikirnir hafa verið spilaðir á Víðisstaðatúni í Hafnarfirði yfir sumarmánuðina. Flestir leikmenn eru innflytjendur en þeir hafa einnig stofnað íslenskt landslið.

„Gagnrýnendur tillögu okkar gætu bent á að okkur skorti alvöru krikketvöll, heldur eigum í dag aðeins það sem sumir myndu kalla vindbarinn almenningsgarð,“ segir í yfirlýsingunni. Er hins vegar bent á að Bandaríkjamenn hafi ekki verið búnir að reisa neinn krikketvöll þegar þeim var úthlutað að halda stórt mót árið 2024.

Í erlendum krikketmiðlum er talið ólíklegt að ICC fallist á tillögu Krikketsambands Íslands.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt