„Við erum eðlilega mjög ósátt við þessa niðurstöðu Landsréttar og teljum hana hafa verið rétta í héraði,“ segir Sigrún Jóhannsdóttir, lögmaður Sindra Þórs Sigríðarsonar, í spjalli við DV, en Landsréttur sneri í dag við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í meiðyrðamáli sem Ingólfur Þórarinsson tónlistarmaður höfðaði á hendur Sindra, fyrir ummæli sem innihéldu orðalagið „að ríða börnum“.
„En svona er þetta, mál geta farið á mismunandi veg eftir dómstigum og aldrei að vita hvernig það færi í Hæstarétti. Það er ekkert sem segir að þetta sé réttari niðurstaða en í héraði, þó hún sé sú sem nú gildir,“ segir Sigrún ennfremur.
Hún segist hafa orðið vör við harðari línu hjá Landsrétti undanfarið þegar kemur að dómum er varða ummæli um nafngreinda einstaklinga: „Landsréttur virðist í nýlegum dómum sínum vera að setja mun harðari línu þegar kemur að tjáningu um siðferðislega ámælisverða og/eða refsiverða kynferðislega háttsemi nafngreindra einstaklinga. Á kostnað tjáningarfrelsisins og þannig óhjákvæmilega brotaþola. Að minnsta kosti eitt þessara nýlegu mála hefur verið kært til Mannréttindadómstólsins og verður áhugavert að fylgjast með þeirri framvindu.“
Landsréttur telur Sindra hafa með ummælum sínum sakað Ingólf um saknæma háttsemi. Sindri á hinn bóginn sagðist hafa viðhaft ummælin til að benda á þá staðreynd að það væri ekki ólöglegt að fullorðnir karlmenn hefðu samræði við börn á aldrinum 15 til 18 ára. „Sindri hefur ítrekað haldið því fram að hann hafi átt við börn á aldrinum 15 til 18 ára og er alveg ljóst að a.m.k. ein ummælin féllu öruggt í þann flokkinn, enda hafði Sindri birt sérstaka yfirlýsingu þess efnis áður en hann lét þau falla. Þá er einnig ljóst að samfarir við börn á þessum aldri eru ekki refsiverð nema í algjörum undantekningartilvikum. Eftir sem áður var Sindri dæmdur fyrir þau ummæli,“ segir Sigrún.
„Þá týnir dómurinn aðeins til þær frásagnir sem hafa með sér ákveðinn „kjaftasögublæ“ og birtir í dóm sínum en vísar svo í héraðsdóm hvað aðrar varðar. Þannig mætti ætla að sú vitneskja sem Sindri bjó yfir hafi aðeins verið byggð á slíkum frásögnum. En eins og fram kemur í dómi Héraðsdóms og við rekstur málsins þá ræddi trúnaðarvinkona Sindra (og síðar lögmaður hans) við flestar/allar þær konur sem birtu frásagnir sínar í hinum svokölluðu „Tiktok sögum“. Þær birtust í fyrstu persónu og voru margar hverjar afar átakanlegar og sláandi.“
Aðspurð segir Sigrún ekki liggja fyrir á þessari stundu hvort þess verði freistað að fá málinu áfrýjað til Hæstaréttar.
„Okkur hefur gefist lítill tími til að leggjast yfir dóminn og við eigum eftir að funda með Sindra og ræða næstu skref, þá m.a. hvort látið verði reyna á áfrýjun hans til Hæstaréttar.“