Sumum þykir þáttur Gísla Marteins Baldurssonar á föstudagskvöldum, Vikan með Gísla Marteini, drepleiðinlegur og finna honum allt til foráttu, jafnvel oft án þess að hafa horft á nýjasta þáttinn eða þættina yfir höfuð. Aðrir liggja hins vegar límdir við skjáinn og finnst þátturinn ómissandi í tilverunni.
Einn þeirra sem skýtur föstum skotum á þáttinn er lögmaðurinn Brynjar Níelsson, en í færslu á Facebook segir hann um Vikuna, án þess að nefna þáttinn eða Gísla Marteinn á nafn:
„Þá er að finna þar skemmtiþætti þar sem stjórnandinn fær vini og félaga í heimsókn og helst þá sem geta talað illa um aðra og upphafið sjálfa sig um leið. Þess á milli reynir þáttatjórnandinn að niðurlægja eða gera lítið úr þeim sem eru honum ekki þóknanlegir á hverjum tíma og hlær mest sjálfur,“ segir Brynjar.
Segir Brynjar fjölmiðla orðna nokkuð þungan bagga fyrir skattgreiðendur, sem „láta af hendi á sjöunda milljarð til RÚV á hverju ári, sem nemur nokkrum hjúkrunarheimilum, og nokkur hundruð milljónir til svokallaðra einkarekinna fjölmiðla, sem deila má um hvort sumir hverjir geti talist fjölmiðlar. En hvað erum við að fá fyrir alla þennan pening og er það þess virði?“ spyr Brynjar.
Rekur hann að auk skemmtiþáttar Gísla Marteins á RÚV fái áhorfendur og skattgreiðendur „að vísu gamla þætti úr safni sjónvarpsins sem sýna stemningu liðinna tíma. Má flokka þá undir menningarverðmæti og eru bæði fróðleikur og ágætis skemmtun. Svo er þarna auðvitað fréttastofa sem virðist helst ganga pólitískra erinda þeirra sem vilja grafa undan öllum helstu atvinnugreinum þjóðarinnar, hvort sem það er orkuiðnaður, fiskveiðar, fiskeldi, landbúnaður eða ferðaþjónusta. Þetta er iðulega sama fólkið sem krefst aukinna útgjalda ríkisins en veit greinilega ekkert hvaðan peningarnir koma.“
Brynjar snýr sér frá ríkisfjölmiðlinum yfir í þá einkareknu og spyr „Hvernig skyldi nú peningarnir nýtast sem skattgreiðendur leggja einkareknum fjölmiðlum til. Þar er að finna fjölmiðil sem hefur talið sjálfum sér í trú um að stundi rannsóknarblaðamennsku en er bara áróðurspési fyrir skaðlega pólitík sem berst hatrammlega gegn tjáningarfrelsi annarra,“ segir Brynjar og má leikum sem lærðum vera ljóst að þar á hann við Heimildina.
„Flestir aðrir miðlar eru bara að segja okkur um upphaf og slit ástarsambanda fólks sem fáir eða enginn veit hver eru, nema vera skyldi Sveinn Andri, sem við allir öfundum. Flest á þetta fólk sameiginlegt að tolla ekki út árið í þessum ástarsamböndum. Að öðru leyti endurflytja þeir efni úr samfélagsmiðlum og helst það ómerkilegasta sem þar er að finna,“ segir Brynjar. En DV nýti mér einmitt þrjá færslur af Facebook við þessi skrif.
„Við hljótum að geta nýtt skattfé betur, kæra Lilja,“ segir Brynjar.
Fjölmargar athugasemdir eru við færsluna eins og jafnan er þegar Brynjar setur staf á samfélagsmiðla.
Á meðal þeirra sem fagna færslu Brynjars eru Gísli Marteinn sjálfur og Atli Fannar Bjarkason verkefnastjóri vefútgáfu og samfélagsmiðla á RÚV.
„Ég skrifa nú ekki mikið hér á vegginn en mig langar til að segja nokkur orð til að þakka fyrir frábærar viðtökur við Vikunni núna í byrjun vetrar. Við höfum fengið miklu meiri og jákvæðari viðbrögð við þessum fyrstu þáttum vetrarins en nokkurn tíma áður. Síðustu 2 vikurnar hefur þátturinn verið vinsælasta efnið á RÚV með um 23% meðaláhorf og 30% uppsafnað áhorf. Þetta þýðir að tæplega fjórðungur landsmanna horfði á hverja einustu mínútu þáttarins en um 30% horfðu á hluta þáttarins. Þetta er ótrúlega mikið áhorf og það er mikil gleði með þetta hjá okkur sem erum í ritstjórn Vikunnar og mikið þakklæti í garð ykkar sem horfið. Það er ekkert keppikefli að vera efst, oft erum við á eftir frábæru efni einsog Landanum, Kappsmáli eða fréttum og erum samt hæstánægð með okkur því þessir þættir eru allir feikilega vinsælir. Og þess vegna langaði mig að stinga niður penna og segja takk við ykkur öll,“ segir Gísli Marteinn.
Þakkar hann Brynjari sérstaklega fyrir að vekja jafn mikla athygli á Vikunni og hann gerir:
„Svo langar mig líka að þakka sérlegum vini þáttarins og tíðum gesti Brynjar Níelsson sem hefur verið óþreytandi við að vekja athygli á þættinum og minna á hann í hverri viku. Að hafa slíkan PR-mann er ómetanlegt þegar framboð gæðaefnis á innlendum og erlendum efnisveitum er jafn mikið og raun ber vitni.
En takk aftur öllsömul, við munum reyna að halda áfram að bjóða upp á skemmtilega þætti öll föstudagskvöld í vetur, með jákvæðni og uppbyggilega umræðu að leiðarljósi. Takk!“
Á tveimur myndum sem Gísli Marteinn birtir með má sjá að þáttur hans fær meira áhorf en fréttir á RÚV og fréttaskýringaþátturinn Kveikur, og aðrir skemmtiþættir eins og Landinn og Kappsmál þegar horft er til aldurshópsins 12 til 54 ára. Fréttir skjótast ofar þættinum þegar kemur að aldurshópnum 55 til 80 ára. Í heildina tekið er Vikan efst á topp 20 og fréttir í öðru sæti.
Atli Fannar deilir færslu Gísla Marteins og tekur undir orð hans og þakkar Brynjari fyrir óeigingjarnt starf hans við að vekja athygli á þættinum:
„Við framleiðslu á þætti eins og Vikunni með Gísla Marteini er sérstaklega verðmætt þegar tíðir gestir þáttarins verða eins konar sendiherrar þáttarins; þau vekja reglulega athygli á þættinum í ræðu og riti og ýta þannig undir áhorf, sem hefur verið með besta móti í vetur.
Fyrir þetta erum við í ritstjórninni þakklát og viljum þakka Brynjari Níelssyni sérstaklega fyrir óeigingjarnt starf í þágu þáttarins. Hann fórnar reglulega frítíma sínum til að mæta í Vikuna en lætur sér það ekki nægja, heldur fylgir heimsóknunum eftir með reglulegum skrifum um þáttinn á Facebook. Takk, Brynjar.“