Jón Axel sagði sögu sína í viðtali við Bítið á Bylgjunni í morgun.
Samhliða fjölmiðlastörfum sínum rekur Jón Axel fyrirtækið JAX handverk og eins og tíðkast er fyrirtækið með Facebook-síðu þar sem viðskiptavinir geta nálgast gagnlegar upplýsingar og vörurnar eru auglýstar til sölu.
„Síðan lenti ég í því að ég fékk sendingu sem virtist vera frá Facebook og það var trúverðugur texti um að ég þyrfti að fara inn og uppfæra eitthvað,“ sagði Jón Axel sem tók fram í viðtalinu að hann væri alla jafna mjög passasamur á allt svona.
„Nema þarna er augnablik þar sem ég bara einhvern veginn keypti þetta. Ég var búinn að vera í sambandi við Facebook og þetta sneri að fyrirtækinu, ekki mér sem prívat aðila og ég bara fyllti út þessar upplýsingar,“ sagði hann en ekki liðu margar sekúndur þar til hann áttaði sig á því að hann hafði gert mistök. Stuttu síðar fékk hann nefnilega skilaboð frá Facebook þess efnis að einhver hefði skráð sig inn á reikninginn hans frá Kína.
Jón Axel segist hafa brugðist skjótt við, breytt lykilorðinu sínu til dæmis og flest hafi bent til þess að þjófunum hefði ekki tekist ætlunarverkið. Annað átti þó eftir að koma á daginn.
„Síðan gerist það að það fara að poppa upp gamlar auglýsingar með nýjum myndum sem fyrirtækið mitt hafði verið að auglýsa. Þær fóru að birtast þessar auglýsingar, nema hvað þetta eru auglýsingar fyrir teygjanlegar gallabuxur fyrir konur og þær birtust sem sagt í Bandaríkjunum,“ sagði hann í viðtalinu. Hann skoðaði málið betur en sá ekkert athugavert í fljótu bragði. Hann setti sig þó í samband við Facebook og voru starfsmenn þar byrjaðir að skoða málið.
„Til að gera langa sögu stutta þá er planið þetta hjá þessum þjófum: Þeir komast inn á fyrirtækjareikninga og gera sig að „admin“ og „collaborators“. Það gefur notendum umræddra Facebook-reikninga ákveðin völd og geta þeir þá til dæmis keypt auglýsingar á Facebook með kreditkorti umræddra fyrirtækja. Jón var til dæmis byrjaður að auglýsa teygjanlegar gallabuxur fyrir um fimm þúsund Bandaríkjadali á dag, eða 700 þúsund krónur.
Jón Axel segir að sem betur fer hafi hann sjálfur ekki orðið fyrir neinu fjárhagslegu tapi.
„Ég var dálítið mikið á vaktinni en þetta hefðu getað verið 5.000 dollarar á dag eða þangað til að kortið sagði nei. Það er í raun og veru það sem þessir aðilar eru að treysta á. Þeir eru að treysta á að það eru mörg fyrirtæki sem eru með auglýsingar allt árið um kring. Svo kemur reikningurinn um mánaðamót og þá er hann kannski fimm sinnum hærri en venjulega.“
Ólafur Kristjánsson, oft kallaður Óli tölva, mætti í Bítið með Jóni en Jón fékk hann til að skoða málið með sér. Óli hefur nú útbúið einskonar forvarnarmyndband þar sem hann sýnir, svart á hvítu, hvernig netþrjótarnir bera sig að í svikum sem þessum. Óli sagði að þetta tiltekna svindl væri fágað og vel gert.
„Ég verð taka ofan fyrir þessum glæpamönnum hvernig þeir gerðu þetta, þetta er rosalega vel gert. Maður verður bara að horfa á þetta raunsætt og þetta eru rosalegir fagmenn. Ég hefði líka fallið fyrir þessu,“ sagði Óli en tók fram að vissar viðvörunarbjöllur hefðu farið að hringja þegar málið var skoðað betur.
Þannig hafi Jón Axel átt að fylla út form í ákveðnu viðmóti, en í ljós kom að aðeins hluti af umræddu viðmóti var virkur. Í viðtalinu hvatti Jón fyrirtækjaeigendur til að fara reglulega yfir hverjir það eru sem stjórna síðunum, hugsanlega séu einhver nöfn eða netföng sem enginn kannast við.
Jón sá til dæmis sitt nafn á reikningnum en undir nafninu var netfang sem hann kannaðist ekki við.
Óli var svo spurður út í annars konar svindl en borið hefur á því að Facebook-notendur fái skilaboð frá vinum þess efnis að gefa upp símanúmerið sitt til að taka þátt í einhverjum leik.
„Undantekningarlaust er þetta fólk að hafa samband sem þú ert ekki í daglegum samskiptum við,“ sagði hann en tók fram að þarna væru svikahrappar að reyna að opna aðgang í gegnum rafræn skilríki. Þeir reyni til dæmis að setja símanúmerið inn í heimabankann og þá fái viðkomandi auðkennisskilaboð til samþykktar.
„Og ef þú samþykkir þá eru þeir komnir inn í bankann hjá þér. Og þú ert ekki tryggður fyrir því sem er tekið þar af því að þú ert búinn að samþykkja það.“
Hér að neðan má sjá myndskeiðið sem Óli bjó til: