Í færslunni sagðist konan hafa farið í svokallað gámagrams (e. dumpster dive) og fundið talsvert af bakkelsi sem ónefnt bakarí hafði losað sig við.
„Ég vissi að bakkelsið myndi varðveitast vegna kulda um nóttina, ég fann efst í gámnum fullan lokaðan poka af rest sem bakaríið henti eftir lokun í gær. Ég hef borðað nægju mína og var gómsætt. En miðað við magnið sem ég fann langaði mig að gleðja aðra í eins stöðu,“ sagði konan sem setti þó ákveðin skilyrði fyrir gjöfinni.
Tók hún sérstaklega að hún væri með fimm poka af bakkelsi fyrir fimm íslenskar fjölskyldur sem eiga engan pening en langar að gera eitthvað gott fyrir börnin sín.
Þetta fór fyrir brjóstið á netverjum sem gagnrýndu konuna harðlega fyrir að ætla einungis að gefa íslenskum fjölskyldum matinn.
„Fallegt að gefa með sér…en alls ekki fallegt með skilyrðum,“ sagði til dæmis í einni athugasemd. „Þú ættir að skammast þín með þetta! Bara íslenskar fjölskyldur,“ sagði í annarri. „En ef annar aðilinn er íslenskur en hinn útlenskur, fær maður þá bara hálfan poka eða?,“ sagði í enn annarri.
Þá vakti færsla konunnar athygli í öðrum fjölmennum Facebook-hópi þar sem fjallað er um rasisma og hatur á samfélagsmiðlum. „Oj bara setja skilyrði á mat stolinn úr ruslatunnu. Nýtt low,“ sagði í einni athugasemd þar.
Konan sem fór í gáminn gagnrýndi viðbrögðin og sagði meðal annars: „Er það ekki líka hræðilegt að ég sé að bjóða fram mat sem er búið að henda í ruslið. Tökum allan skítinn fram bara og kæfum þennan póst í neikvæðni.“
Svo virðist sem konan hafi eytt færslunni í kjölfarið.