fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fréttir

Verjandinn sem vildi 14 m.kr fyrir 80 daga gekk tómhentur úr Hæstarétti – Sultuslök lögreglan sendi hvorki kröfu né lögmann

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 25. október 2023 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lögmanninum Sverri Sigurjónssyni hefur ekkert gengið að fá greitt fyrir verjendastörf sem hann tók að sér í sumar. Sverrir gætti um tíma hagsmuna karlmanns sem grunaður er um að hafa banað Sofiu Sarmite Kolenikovu á Selfossi í apríl.

Sakborningur er nú kominn með nýjan verjanda, og á Sverrir eftir að fá greitt fyrir verjendastörf sem hann gegndi í alls 80 daga í sumar. Samkvæmt tímaskýrslum sem hann hefur lagt fram varði hann um 441 vinnustund í þágu sakborningsins. Þessi vinna hafi átt sér stað yfir sumartíma og hafi Sverrir þurft að hætta við bæði ferðalög og viðburði sökum mikilla anna. Eins hafi hann ekið rúmlega 5.000 kílómetra þar sem hann þurfti ítrekað að vitja sakbornings í fangelsið á Hólmsheiði, en sakborningur var að ganga í gegnum mikið áfall og erfiðleika sökum handtöku og gæsluvarðhalds.

Sverrir greip á það ráð að stefna lögreglustjóranum á Suðurlandi þar sem hann krafðist greiðslu í samræmi við tímaskýrslu, tæplega 14 milljónir miðað við tímagjald upp á 24.300. Héraðsdómur féllst á að Sverrir ætti að fá greitt en sagði tíma- og akstursskýrslu úr öllu hófi. Því ætti Sverrir að fá greitt fyrir 204 vinnustundir og 1.080 ekna kílómetra. Hluti tímaskýrslu hafi falið í sér stundir þar sem Sverrir sagðist hafa verið á bakvakt, en hann hafi þurft að vera til taks allan sólarhringinn. Dómari benti á að bakvakt fæli í raun í sér vinnu sem ekki væri unnin. Eins hefði Sverrir sjálfur ákveðið að hætta við ferðalög og uppákomur, óumbeðinn, og því ekki hægt að taka tillit til þess. Verulegur hluti vinnu á tímaskýrslu væri fyrir verk sem féllu utan hlutverks skipaðs verjanda. Það sama ætti við um allan þennan akstur, en margar ferðirnar í fangelsið hefði mátt afgreiða með símtali. Sálgæsla væri ekki hlutverk verjanda og ekki heldur sendiferðir til sakbornings með snakk, drykki og DVD-diska.

Sverrir sætti sig ekki við þessa niðurstöðu og áfrýjaði úrskurði til Landsréttar sem felldi hann úr gildi. Vísaði Landsréttur til þess að málinu gegn sakborningnum væri ekki lokið, en lögum samkvæmt ákveði dómari þóknun til verjenda í dómi eða úrskurði þegar máli lýkur með þeim hætti, en annars með bókun í þingbók eða skriflega, ljúki máli með öðrum hætti. Ekkert þetta eigi við þar sem málinu sé enn ekki lokið og breyti þar engu þótt annar verjandi sé tekinn við starfinu. Því sé ekki tímabært að ákveða þóknun.

Ekki sætti Sverrir sig við þetta heldur og áfrýjaði úrskurði Landsréttar. Ekki virðist lögreglustjórinn á Suðurlandi stressaður yfir áfrýjuninni og lét embættið málið ekki til sín taka. Þar af leiðandi krafðist lögreglustjóri þess ekki að úrskurður Landsréttar yrði staðfestur, enda embættið ekki einu sinni með fyrirsvarsmann fyrir Hæstarétti. Þetta áhyggjuleysi reyndist réttlætanlegt því Hæstiréttur vísaði málinu frá á þeim grundvelli að það væri hreinlega engin lagaheimild til að áfrýja úrskurði Landsréttar um ágreining á borð við þennan. Kærumálskostnaður var ekki dæmdur, enda má ætla að lögreglustjórinn á Suðurlandi hafi ekki setið upp með mikinn kostnað.

Sverrir hefur því tæmt dómstólaleiðina og mun þurfa að bíða þar til niðurstaða fæst í rannsókn harmleiksins á Selfossi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Skarphéðinn stígur til hliðar sem dagskrárstjóri RÚV

Skarphéðinn stígur til hliðar sem dagskrárstjóri RÚV
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Verslunarstjóri ákærður fyrir nauðgun á fötluðum undirmanni sínum og tveimur andlega fötluðum ungmennum

Verslunarstjóri ákærður fyrir nauðgun á fötluðum undirmanni sínum og tveimur andlega fötluðum ungmennum
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Gagnrýnir Þorstein fyrir ummæli um verkakonu í frystihúsi – „En hvert skyldi nú sannleiksgildi þessara orða vera?“

Gagnrýnir Þorstein fyrir ummæli um verkakonu í frystihúsi – „En hvert skyldi nú sannleiksgildi þessara orða vera?“
Fréttir
Í gær

Hinn grunaði morðingi Mangione getur ekki stundað kynlíf en er orðinn kyntákn – „Svooooooo heitur“

Hinn grunaði morðingi Mangione getur ekki stundað kynlíf en er orðinn kyntákn – „Svooooooo heitur“