Konu í Kópavogi brá töluvert þegar hún fékk reikning fyrir smíði á þakkant, eða öllu heldur reikninga. Þrátt fyrir að hafa, að hennar mati, skýrt tekið fram að reikningurinn mætti ekki fara yfir 2 milljónir endað hún fyrir dómi þar sem verktakinn krafði hana um tæplega 8,9 milljónir á grundvelli þriggja reikninga. Dómari dæmdi konuna til að greiða helming reikningsins og mætti því segja að verktakinn hafi haft betur, ef ekki væri sökum þess að dómari tók sérstaklega fram að reikningurinn hefði verið í engum takti við raunveruleikann og gerði því verktakanum að greiða málskostnað.
Dómur féll í málinu í Héraðsdómi Reykjaness í dag.
Málsatvik voru þau að konan leitaði til verktakafélagsins Suðurbær ehf. í bað þá um að smíða þakkant á hús hennar. Ekki var gerður skriflegur samningur og voru konan og verktakinn ósammála um hvenær þau hefði samið um verkið og hvað í þeim samningi fólst. Konan gekk frá upphafi út frá því að kostnaður vegna vinnu við verkið yrði reiknaður sem tvöfaldur efniskostnaður. Hún reddaði efninu sjálf og sagði við verktaka að reikningurinn mætti ekki verða hærri en 2 milljónir. Hún hefði ekki tök á meiru.
Framkvæmdin hófst í janúar 2020 og lauk í mars.
Konan fékk í febrúar reikning frá verktakanum sem hljóðaði upp á rúmlega 2,4 milljónir. Þarna var aðeins farið út fyrir umsamið verð, að mati konunnar sem taldi sömuleiðis ljóst að hér væri um heildarreikning að ræða.
Um miðjan mars fékk hún svo annan reikning. Að þessu sinni reikning fyrir tæpum 2,8 milljónum. Þessu mótmælti konan og endaði með að greiða alls 2,8 milljónir upp í þessa tvo reikninga. Sú upphæð væri frekar í samræmi við gerðan samning en sú sem verktakinn fór fram á.
Eftir að verktakinn hóf innheimtuaðgerðir gegn konunni kom á endanum á daginn að þriðji reikningurinn hafði einnig verið gefinn út og hljóðaði sá upp á rúmlega 3,6 milljónir, en konan segist ekki hafa fengið þriðja reikninginn í hendurnar fyrr en tveimur árum eftir að hann var gefinn út, en þá hafi verið búið að höfða mál gegn henni og hún krafin um að greiða alla þrjá reikningana, eða tæpar 8,9 milljónir, og þar að auki dráttarvexti.
Konan mótmælti því að þurfa að greiða meira en hún hafði greitt. Hér hefði verktakinn farið langt út fyrir það sem samið var um og verktakinn á engum tímapunkti varað hana við. Hún sem neytandi hefði treyst á fagmennsku og kunnáttu verktakans. Ekki geti staðist að verktaka sé heimilt að fara þetta langt fram úr áætlun án þess að leita samþykkis verkkaupa eða greina frá væntanlegum viðbótarkostnaði. Kröfur verktakans í máli þessu væru sérlega og bersýnilega ósanngjarnar.
Suðurbær ehf. bar því við að konan hefði engar athugasemdir gert við tímaskrá. Verkið hafi verið unnið á heimili hennar og gat hún því fylgst með og staðreynt tímaskráningu. Hún hafi ekki mótmælt tímagjaldi. Konan hafi sjálf óskað eftir þakkanti sem var dýrari en upphaflega var lagt út með og þar að auki kannaðist verktakinn ekkert við að hafa samið um að verð fyrir vinnu væri tvöfalt efnisgjald. Ágallar hafi komið fram þegar framkvæmdin var hafin sem hafi gert verkið flóknara og dýrara, eins hafi veður verið slæmt sem gerði vinnu seinlegri en ella. Hér væri um eðlilegan reikning að ræða vegna framkvæmda sem vissulega hafi farið fram og engar athugasemdir gerðar við gæði þeirra. Hér þyrfti því að gera upp reikninginn.
Dómkvöddum matsmanni var fengið að skoða fasteignina og meta hvað þessi framkvæmd hefði með réttu átt að kosta á þeim tíma sem hún fór fram. Hann fór og mat eftir sinni sérfræðiþekkingu, út frá þekktum gjaldskrám og út frá samræmum við fagmenn. Komst hann að þeirri niðurstöðu að eðlilegt verð fyrir framkvæmdina væru 4,4 milljónir.
Dómari rakti að konunni hafi ekki tekist að færa sönnur fyrir því að samkomulag hafi verið um að kostnaður færi ekki umfram 2 milljónir eða að kostnaður við vinnu ætti að vera í hlutfalli við efniskostnað. Hún þyrfti því að borga reikninginn, enda hefði framkvæmdin vissulega farið fram. Því bæri henni að greiða tæpar 4,4 milljónir, í samræmi við niðurstöðu matmanns, að frádregnum þeim 2,8 milljónum sem hún hafði þegar greitt. Þar með endaði hún með að greiða um helming af því sem reikningurinn hljóðaði upp á. Dómari tók það sérstaklega fram að í ljósi þess mætti í raun líta svo á að verktakinn hafi tapað málinu, en þá ályktun má draga af eftirfarandi ummælum í niðurlagi dóms:
„Er krafa stefnanda úr öllu hófi þegar litið er til niðurstöðu hennar[matsgerðar] og greiðslna sem stefnda hefur þegar innt af hendi,“ en þetta óhóf varð til þess að verktakinn sat uppi með málskostnaðinn.