Guðni skrifar aðsenda grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann lýsir þessum áhyggjum sínum og vekur athygli á baráttufundi ungra bænda sem fram fer í Salnum í Kópavogi næstkomandi fimmtudag.
„Nú eru aðeins 34 ár síðan sá orðhagi maður Sverrir Hermannsson kvaddi sér hljóðs á þessa leið: „Sjávarútvegurinn er að fara norður og niður og til andskotans, verða gjaldþrota.“ Stríðsyfirlýsing sem hafði áhrif, löngum ferli gengisfellinga og gjaldþrota lauk í framhaldinu í sjávarútvegi. Og nú erum við talin eiga einn fremsta sjávarútveg í heimi í rekstri og virðingu fyrir náttúrunni í allri veröldinni.“
Guðni segir að atgervisflótti sé nú úr landbúnaði og aldrei hafi verið auðveldara að selja kvóta og jörð eða snúa sér að öðru.
„Afkoma bænda hefur rýrnað síðustu misseri af mörgum kunnum ástæðum. Evrópusambandið sprautaði í sinn landbúnað 430 milljónum evra í sumar og Noregur 1,4 milljónum á hvert ársverk í landbúnaði. Hér segir landbúnaðarráðherrann í nafni ríkisstjórnarinnar bændur fá tvo milljarða í korn, ekki krónu meira nema skerðingar á framlög ríkisins.“
Guðni segir að íslenskur landbúnaður búi orðið við minni stuðning ríkisins en landbúnaður nágrannaþjóða.
„Bjarni Benediktsson segir að eitt hundrað milljarðar séu nú óvæntar tekjur ríkissjóðs. Ferðaþjónustan skilar miklum peningum og landbúnaðurinn og ferðaþjónustan eiga að vera systkini, þurfa á hvort öðru að halda. Bændur sitja eins og aðrir í fjötrum hárra vaxta, sverð seðlabankastjóra bitnar á saklausu fólki, þeim ungu sem búin eru að fjárfesta í íbúð til 50 ára og atvinnurekstri sem er að byggjast upp eins og í landbúnaði.“
Guðni segir svo frá því viðhorfi sem virðist vera ríkjandi í garð stéttarinnar. Lýsir hann reynslu hjóna, ungum bændum, sem óskuðu eftir fjármögnun frá banka til að endurnýja húsa- og tækjakost.
„Ung hjón sögðu mér farir sínar ekki sléttar, fóru til bankastjórans til að biðja um fjármagn til að endurnýja gamalt úrelt básafjós, afurðir kúnna með því allra besta. Bankastjórinn dró augað í pung og sagði: „Haldið þið að kýrin standi undir þessum kostnaði? Er ekki betra að selja kvótann og byggja ferðaþjónustuhús?““
Guðni telur að landbúnaðurinn sem atvinnuvegur eigi sömu möguleika og sjávarútvegurinn, að því gefnu að gengið verði í að laga umgjörðina og rekstrarumhverfið. Landbúnaður hér geti orðið einn sá besti og athyglisverðasti í Evrópu.
„Inn í rekstrargrunn landbúnaðarins vantar eitt Litla-Hraun að dýrleika, 10-12 milljarða á ári. Enginn atvinnuvegur hefur á síðustu tuttugu árum hagrætt jafn mikið í þágu neytenda og Matvælalandsins. Nú er komið að ríkisstjórn og Alþingi að setjast niður með okkar mikilvægustu stétt, bændunum, og að sjálfsögðu afurðastöðvum þeirra. Það snýr að því að tryggja neytendum afburðamatvæli, öryggi landsins byggist á matvælum í veröld sem ekki er hægt að treysta,“ segir Guðni sem endar grein sína á þessum orðum:
„Bóndinn okkar er einn fremsti matvælaframleiðandi í víðri veröld í hreinni náttúru og lyfjanotkun í dýr og fóður og jörð minnst meðal allra þjóða.“