Þrátt fyrir að morðin á tveimur Svíum í Brussel á mánudaginn og morðið á frönskum kennara á föstudaginn tengist stríði Hamas og Ísraels ekki beint þá segja margir sérfræðingar að hætta sé á fleiri hryðjuverkum og aukinni öfgahyggju. Ástæðan er hin mikla spenna og hatur sem fylgir stríðinu og fréttum af miklu mannfalli meðal almennra borgara.
Charles Michel, forseti ESB, sendi leiðtogum ESB-ríkjanna bréf á þriðjudaginn þar sem hann sagði að stríð Hamas og Ísraels geti haft miklar afleiðingar fyrir öryggið í ESB. Hann skrifaði meðal annars að ef aðgát sé ekki sýnd, þá geti stríðið hugsanlega aukið spennuna í samfélaginu og kynt undir öfgahyggju.
Magnus Ranstorp, sem er sérfræðingur í málefnum hryðjuverkasamtaka og kennir við sænska varnarmálaskólann, sagði í samtali við Jótlandspóstinn að það sé raunveruleg hætta á nýjum hryðjuverkum í Evrópu vegna stríðs Ísraels og Hamas.
Hann sagði að stríðið geti haft miklar afleiðingar í Evrópu. Átök Ísraels og Hamas séu einu átökin sem geti kveikt reiði, óróleika og snúið öllu á hvolf meðal allra íslamista og múslima, þetta eigi einnig við í Evrópu.
Hann sagði að hatur margra múslima og íslamista í garð Ísrael eigi rætur í gyðingahatri og það skipti engu hvað Hamas geri Ísrael, samtökin fái alltaf stuðing frá þessum hópi.
Hann benti einnig á að hætta stafi af öfgahópum sem styðja Ísrael í stríðinu gegn Hamas. Sú mikla spenna sem ríki geti leitt til þess að öfgahægrimenn fremji hryðjuverk sem beinast gegn múslimum og um leið geti íslamsfóbía aukist í Evrópu.