Sigmundur Ernir Rúnarsson sendir frá sér bókina Í stríði og friði fréttamennskunnar í næstu viku, en þar gerir hann upp allan sinn litríka fjölmiðlaferil eins og segir á bókarkápu.
„Þetta hefur verið einstaklega viðburðaríkur tími, svo ekki sé meira sagt,“ segir Sigmundur Ernir en hann kveðst bæði fyrr og síðar hafa verið hvattur af fjölda fólks til að festa þessa sögu á blað.
Og sá tími gafst eftir að Fréttablaðið lagði upp laupana á útmánuðum þessa árs, en Sigmundur Ernir ritstýrði því síðustu árin sem það kom út, ásamt því að stjórna sjónvarpsstöðinni Hringbraut og öðrum miðlum fjölmiðlafyrirtækisins Torgs.
„Á köflum trúði ég varla því sem ég var að rifja upp í skrifum mínum,“ segir Sigmundur Ernir, „enda má heita að ég hafi verið með andlitið ofan í Íslandssögunni á þessum ríflega fjörutíu ára fjölmiðaferli og runnið á lyktina í reykfylltum bakherbergjum innan um alla helstu valdamenn landsins,“ bætir hann við.
Hér komi sagan öll í sinni svakalegustu mynd – og margt af því furðulegasta sem hafi ekki ratað í fréttir á sínum tíma, en segi núna, svona löngu seinna, sína merkilegu sögu í baksýnisspeglinum.
„Þessi bók er samfélagsleg afhjúpun,“ segir rithöfundurinn sem á að baki á annan tug ljóðabóka og annað eins af æviminningum og öðrum sögum. Bókin sýni öðru fremur hvernig frjálsum fjölmiðlum tókst frá og með miðjum áttunda áratug síðustu aldar að opna samfélagið og frelsa það undan ánauð karllægrar þöggunar og viðurstyggilegs flokksræðis sem hélt aftur af lýðræði, samkeppni og einkaframtaki til þess eins að maka krókinn hjá útvöldum aðli.
„Breytingin frá stofnun Dagblaðsins og kvennabyltingunni 1975 er stórkostlegt dæmi um það hvernig almenningur segir gott komið af gerspilltri helmingaskipastjórn og fer að riðla völdum þeirra sem töldu sig eiga þau á Íslandi,“ segir Sigmundur Ernir.
En bókin sé líka skemmtilestur. „Ó, mikil ósköp. Það vantar ekki sögurnar í þessa bók,“ segir einn reyndasti blaðamaður landsins sem hefur stýrt og stjórnað dagblöðum og fréttastofum um áratugaskeið og ýmist stofnað eða mótað marga helstu miðlana sem hrist hafa hvað rækilegast upp í íslensku samfélagi.
Í stríði og friði fréttamennskunnar kemur út um miðja næstu viku. Bókaforlagið Sæmundur gefur út.