Í grein sinni, sem ber yfirskriftina Rafhlaupahjól eru dauðans alvara, fjallar Ísólfur um rafhlaupahjólin sem notið hafa mikilla vinsælda sem samgöngutæki. Þau eru þó ekki hættulaus eins og mýmörg dæmi hafa sannað og hafa alvarleg slys, þar af tvö banaslys, orðið sem tengjast notkun hjólanna.
„Í slysatölfræði sem lögð hefur verið fram kemur í ljós að fjórðungur alvarlega slasaðra á ársgrundvelli, eða um 200 manna, er vegna notkunar á rafhlaupahjólum en aftur á móti hefur náðst árangur til batnaðar varðandi slys vegna annarra ökutækja í umferðinni þrátt fyrir stóraukna umferð vegna fjölgunar ferðamanna. Margir vegfarendur á rafhlaupahjólum eru með heyrnartól og hafa því ekki fulla einbeitingu á hinum fjölmörgu glæsilegu hjóla- og göngubrautum á höfuðborgarsvæðinu og víðar,“ segir Ísólfur og bætir við að alvarlegustu slysin verði þegar fólk bregður sér á hjólin og brunar heim af djamminu um helgar.
„Jafnvægispunkturinn er svolítið sérstakur á þessum farartækjum, hvað þá ef fólk er undir áhrifum. Lítil dekk eru á skutlunum og þarf því litlar ójöfnur til þess að missa jafnvægið og detta. Alvarleg andlitsmeiðsl, brotnar tennur og ljót ör vegna meiðsla sem vara e.t.v. allt lífið eru áminning um óvarkárni og hugsunarleysi.“
Ísólfur bendir einnig á að notendur hjólanna gangi í mörgum tilfellum kæruleysislega um þau og dæmi séu um að sjóndaprir hafi fallið um hjólin og slasast. Auðvitað séu fleiri einstaklingar sem nota og umgangast þessi farartæki eins og best verður á kosið.
„Við ættum að læra af reynslu annarra þjóða sem tóku þessi hjól í notkun tveimur til þremur árum á undan okkur og hafa í einhverjum tilfellum takmarkað notkun þeirra. En hvað er til ráða? Skoða þarf alvarlega hvort yfirvöld neyðast til þess að banna notkun hjólanna eftir tíu á föstudags- og laugardagskvöldum, sem er neyðarúrræði. Gefa þarf lögreglu skýrar heimildir til eftirlits og viðurlög þurfa að vera fyrir hendi. Í bígerð er frumvarp sem lagt verður fyrir Alþingi á þessu starfsári sem tekur væntanlega á þeim þætti.“
Nú þegar vetur er að ganga í garð hvetur Ísólfur, fyrir hönd fagráðs umferðarmála, gangandi og hjólandi vegfarendur til að fara varlega og vera með endurskinsmerki þannig að þeir séu áberandi í umferðinni.