147 milljónir söfnuðust í söfnunarþætti Grensás sem sýndur var í beinni útsendingu á RÚV. Útsendingin fór fram hjá Rúv að Efstaleiti og í þjónustuveri Vodafone að Suðurlandsbraut 8. Vodafone sá söfnuninni fyrir öruggri fjarskiptaþjónustu við áheitasöfnunina sem fór fram í gegnum síma eða með sms.
Markmiðið með söfnuninni var að standa fyrir landssöfnun meðal fyrirtækja, félaga, klúbba og almennings svo kaupa megi tæki í nýtt húsnæði Grensás. „Það er afar ánægjulegt að taka þátt í svona mikilvægu verkefni. Tryggt fjarskiptasamband er lykilþáttur í svona söfnunum þar sem að álagið á kerfið verður mikið á stuttum tíma. Starfsfólk Vodafone tryggði að tæknin virkaði sem skildi ásamt því að umbreyta þjónustuveri Vodafone þar sem sjálfboðaliðar svöruðu í símann og tóku á móti framlögum. Einstök samstaða og gleði var þetta kvöld þar sem landsmenn lögðust svo sannarlega á eitt í að safna ríkulega fyrir tækjum fyrir Grensás,“ segir Sesselía Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Vodafone.
Grensás sér um endurhæfingu fólks sem hefur orðið fyrir alvarlegum áföllum vegna slysa eða sjúkdóma.