Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu þann 11. september að trúnaðarlæknir á ónefndum vinnustað hafi brotið gegn lögum um persónuvernd þegar hann fletti upp í sjúkraskrá starfsmanns í fjögur skipti á ótilgreindu tímabili. Umræddur læknir hafði ekki komið að meðferð starfsmannsins í kjölfar vinnuslyss.
Umræddur starfsmaður var óvinnufær frá því að slysið átti sér stað. Í kjölfari hætti hann störfum hjá vinnuveitanda sínum og komst þá að því að trúnaðarlæknir hefði flett upp í sjúkraskrá hans tiltekin skipti.
Leitaði starfsmaðurinn þá til embættis landlæknis og kvartaði vegna óheimilla uppflettinga í sjúkraskrá og vegna brots á trúnaðar- og þagnarskyldu. Niðurstaða landlæknis var sú að trúnaðarlæknirinn hefði brotið ákvæði laga um sjúkraskrár með uppflettingunum og gegn ákvæðum um trúnaðar- og þagnarskyldu samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga og laga um heilbrigðisstarfsmenn.
Starfsmaðurinn leitaði eins til Persónuverndar og tók fram að trúnaðarlæknirinn hafi ekki komið að læknismeðferð hans, enda hafi starfsmaðurinn ekki verið að leita sér læknisaðstoðar á þeim tíma sem uppflettingarnar fóru fram. Læknirinn hafi ítrekað skoðað sjúkraskrá hans, en engin samskipti væru þó skráð við þessar tilteknu uppflettingar.
Trúnaðarlæknirinn vann samhliða á heilbrigðisstofnun, sem ekki er nafngreind í niðurstöðu Persónuverndar. Sem læknir á þeirri stofnun hafði læknirinn aðgang að sjúkraskrárupplýsingum sjúklinga í umdæminu í þeim tilgangi að geta veitt nauðsynlega og rétta heilbrigðisþjónustu eftir því sem nauðsyn bæri til vegna starfa sinna. Heilbrigðisstarfsmönnum sé einungis heimilt að nota sjúkraskrá vegna meðferðar sjúklings, þegar upplýsingar úr sjúkraskrá eru nauðsynlegar vegna meðferðarinnar. Læknirinn tók fram að umræddur starfsmaður hafi lent í vinnuslysi og verið óvinnufær. Reynt hafi verið að koma til móts við starfsmanninn svo hann gæti sinnt vinnu sem starfsmaðurinn hafi samþykkt. Síðan hafi starfsmanninum verið sagt upp störfum sökum heilsubrests. Þá hafi starfsmaður leitað réttar síns varðandi ólögmæta uppsögn á grundvelli lengds veikindaréttar og þá hafi starfsmaður vísað til þess að hafa lent í öðru vinnuslysi. Svo hafi vinnuveitandi starfsmannsins leitað til trúnaðarlæknis til að meta afleiðingar hins metna vinnuslyss og síðar óskað eftir sérstöku mati frá trúnaðarlækni. Hafi læknirinn fengið munnlegt samþykki frá starfsmanninum fyrir uppflettingum og því hafi verið heimild til staðar og uppfletting að sama bragði nauðsynleg til að meta vinnufærni.
Starfsmaðurinn bar því við að hann hafi vissulega hitt trúnaðarlækni, en það hafi verið að frumkvæði læknisins og þeirra samtal farið fram í skjóli trúnaðar. Ef þörf hefði verið á frekari upplýsingum hefði verið viðeigandi að óska eftir læknisvottorði frá öðrum lækni og ef starfsmaðurinn hefði ekki verið búsettur í umdæmi læknisins hefði hann hvort eð er ekki haft aðgengi að þessum gögnum. Því hafi læknirinn misnotað stöðu sína.
Persónuvernd rakti að á fundi sínum við lækninn hefði starfsmanni mátt vera ljóst í hvaða tilgangi persónuupplýsingar hans yrðu í framhaldinu unnar og hvaða afleiðingar það gæti haft. Þó geti samþykki ekki talist veitt af fúsum og frjálsum vilja ef afstöðumunur er milli aðila. Hér hafi læknirinn verið í yfirburðastöðu og hafi þar að auki verið að vinna mat á afleiðingum slyss að beiðni vinnuveitanda. Læknirinn hafi ekki komið að meðferð starfsmannsins og landlæknir hafi komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn lögum. Lækninum var því ekki heimilt að fletta starfsmanninum upp.