fbpx
Fimmtudagur 18.september 2025
Fréttir

Borgarfulltrúi lýsir heimsókn í borg uppvakninga

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 4. september 2023 11:06

Myndin er samsett. Myndir: Reykjavik.is, Wikimedia

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, ritar grein sem birtist í Morgunblaðinu í morgun. Í greininni lýsir hún heimsókn sinni, í ferð á vegum Reykjavíkurborgar, í ágúst síðastliðnum til borgarinnar Portland í Oregonríki í Bandaríkjunum. Hún hafi áður heimsótt Portland en í þessari heimsókn hafi henni krossbrugðið. Hún hafi aldrei áður séð jafnmargt fólk á vergangi sem sé augljóslega fárveikt bæði andlega og líkamlega. Ragnhildur segist hafa fengið þær skýringar að hér væri um að ræða afleiðingar fentanýlfaraldursins í Bandaríkjunum.

„Á öðru hverju götuhorni var fólk í bullandi geðrofi, ýmist öskrandi hástöfum og ógnandi öðrum eða spígsporandi milli gangstéttarinnar og götunnar í hrókasamræðum við sjálft sig. Margir hópa sig saman á gangstéttunum, sumir sofandi en aðrir dópandi fyrir allra augum og alls staðar er tjaldað. Portlandbúar sem ég talaði við hófu allir mál sitt á að telja sig umburðarlynda og hafa samkennd með fólki en þetta væri farið úr böndunum.“

Ragnhildur segir að hún og ferðafélagar hennar hafi gist á hóteli í miðborginni og að einn borgarfulltrúi í Portland hafi tjáð þeim að í þeim hluta borgarinnar væri vandinn verstur. Miðborginni hafi verið lýst þannig að hún væri eins og bíómynd um afturgöngur og uppvakninga (e. zombieland). Þegar skýringa var leitað hafi svörin verið öll á eina lund:

„Aðspurð um ástæðurnar nefndu öll fentanýlfaraldurinn í Bandaríkjunum og að Portland væri ákjósanlega staðsett á helstu verslunarleið mexíkóskra glæpasamtaka í gegnum Bandaríkin. Kínversk lyfjafyrirtæki selja þeim uppistöðuefni fentanýls fyrir slikk og því er framleiðslukostnaðurinn afar lágur, sem lækkar götuverð lyfjanna. Faraldurinn er þó engin nýjung heldur hefur hann geisað í tæpan áratug en áður skók heróínfaraldur Bandaríkin. Borgarfulltrúanum og borgarstjóra Portland þótti dapurlegt að viðurkenna að fólk saknaði heróíntímans, því það sljóvgaði fólk og skemmdi hægar en fentanýlið, sem gerir fólk árásargjarnara og illilega geðveikt.“

Stíflan hafi brostið með afglæpavæðingu

Ragnhildur segir að hún hafi verið áhugasöm um afglæpavæðingu neysluskammta fíkniefna og fjölgun meðferðarúrræða. Borgarfulltrúar í Portland hafi útskýrt fyrir henni og samferðafólki hennar að sú leið hafi verið farin í borginni árið 2020 með afglæpavæðingu neysluskammta harðari fíkniefna eins og heróíns og kókaíns. Samhliða hafi kannabissala verið skattlögð en meðferðarúrræðin hafi verið allt of fá. Í kjölfar þessara breytinga hafi verið eins og stífla hafi brostið. Aðgengi að fentanýl stóraukist og verðið hríðlækkað og í dag sé ein tafla af þessu verkjalyfi, sem er bæði sterkt og ávanabindandi, ódýrara en kaffibolli á Starbucks. Fjöldi dauðsfalla vegna of stórra skammta hafi rúmlega sjöfaldast.

Þar að auki hafi borgarstjórn Portland skorið niður fjármagn til lögreglunnar, um andvirði rúmlega 3,2 milljarða íslenskra króna og með því hafi síðasta vígið líklega fallið.

Hún segir að borgarfulltrúar í Portland hafi tjáð íslenskum gestum sínum að úrræði hafi skort eftir afglæpavæðinguna og að deilur um fyrirkomulag hafi tafið uppbyggingu úrræðanna enn frekar. Skatttekjur af kannabissölu hafi þó auðveldað uppbyggingu úrræða vegna heimilisleysis og meðferða. Hún og samferðafólk hennar hafi heimsótt smáhýsaþorp sem, ólíkt því sem er í Reykjavík, afgirt með sólarhringsstuðningi við íbúa, auk samkomusalar og eldhúss. Þeim hafi verið tjáð að hins vegar væri þó nokkur samkeppni um fjármagn til þjónustuaðila í þessum málum sem bitnaði á samvinnu þeirra á milli.

Ragnhildur segir að hún hafi snúið heim til Íslands með meiri þekkingu og skilning á þessum málaflokki. Hún lýkur grein sinni á varnaðarorðum Ted Wheeler borgarstjóra Portland:

„Ef fentanýlið er ekki komið til Íslands ennþá skuluð þið nýta tímann til að undirbúa ykkur.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Þættir um íslenskt grín fengu enga endurgreiðslu – Skýringar á því voru ófullnægjandi

Þættir um íslenskt grín fengu enga endurgreiðslu – Skýringar á því voru ófullnægjandi
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Sæþór segir að Sanna sé ekki vinsæl innan Sósíalistaflokksins – „Ekki hægt að hafa fulltrúa sem vinnur ekki með flokknum“

Sæþór segir að Sanna sé ekki vinsæl innan Sósíalistaflokksins – „Ekki hægt að hafa fulltrúa sem vinnur ekki með flokknum“
Fréttir
Í gær

Borgarfulltrúi Framsóknar segir að krafan um bílastæði sé eðlileg – „Reykjavík er ekki Kaupmannahöfn eða Osló“

Borgarfulltrúi Framsóknar segir að krafan um bílastæði sé eðlileg – „Reykjavík er ekki Kaupmannahöfn eða Osló“
Fréttir
Í gær

Uppnám í Hafnarfirði – Félagi eldri borgara úthýst um næstu áramót

Uppnám í Hafnarfirði – Félagi eldri borgara úthýst um næstu áramót
Fréttir
Í gær

Fékk neitun um ríkisborgararétt vegna 10 þúsund króna

Fékk neitun um ríkisborgararétt vegna 10 þúsund króna
Fréttir
Í gær

Sviplegt fráfall – Söngvari At the Gates látinn aðeins 52 ára að aldri

Sviplegt fráfall – Söngvari At the Gates látinn aðeins 52 ára að aldri
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi fallhlífarhermaður fyrir dóm vegna morða sem áttu sér stað fyrir rúmum 50 árum

Fyrrverandi fallhlífarhermaður fyrir dóm vegna morða sem áttu sér stað fyrir rúmum 50 árum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Bleika slaufan hefur alltaf snert við mér“

„Bleika slaufan hefur alltaf snert við mér“