Þann 7. september næstkomandi verður þingfest fyrir Héraðsdómi Suðurlands á Selfossi, mál gegn Halldóri Hlíðar Begmundssyni, sem héraðssaksóknari hefur ákært fyrir skilasvik, en til vara fjárdrátt, frá fyrirtækinu Suðurfell ehf. Halldór er sagður hafa millifært tæplega 11 milljónir króna af reikningi Suðurfells og nýtt í eigin þágu. Á því tímabili sem um ræðir átti fyrirtækið í miklum kröggum og vanskilum.
Starfsemi Suðurfells var undirbúningsvinna á byggingasvæði en fyrirtækið var stofnað í janúar árið 2016. Það var úrskurðað gjaldþrota í lok september árið 2018. Halldór var, samkvæmt ákærunni, eigandi, framkvæmdastjóri og eini stjórnarmaður félagsins.
Í ákærunni eru tilgreindar alls 19 ólöglegar millifærslur af reikningi Suðurfells yfir á reikning Halldórs og áttu þær sér allar stað á árinu 2018, fram að gjaldþrotinu í september. Hæsta millifærslan er rúmlega 1,6 milljónir króna og lægsta 125 þúsund. Samtals nemur hinn meinti fjardráttur 10.755.000 krónum.
Héraðssaksóknari krefst þess að Halldór verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Halldór hefur áður gerst brotlegur við lög en árið 2009 var hann dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir hlutdeild í svonefndu Papeyjarmáli, en þá voru sex karlmenn dæmdir fyrir mikið fíkniefnasmygl með skútunni Papey. Málið snerist um 55 kg af amfetamíni, 53 kg af kannabis og 9.400 e-töflu. (Sjá mbl.is).
Þrátt fyrir þiggja ára dóm í málinu fékk Halldór lægstu refsingu sakborninganna, en tveir fengu tíu ára fangelsi. Halldór hlaut vægari refsgingu vegna þess að hann var hjálpsamur við að upplýsa málið og bar vitni gegn öðrum sakborningum fyrir dómi.