Volodymyr Zelenskyy, forseti Úkraínu, ávarpaði Aspen Security Forum í Colorado í Bandaríkjunum á föstudaginn, að vísu í gegnum fjarfundabúnað, þar sem hann lofaði að úkraínska þjóðin megi eiga von á meiri árangri innan ekki svo langs tíma.
„Við höfðum í hyggju að hefja gagnsóknina í vor en það gerðum við ekki, því í hreinskilni sagt þá áttum við ekki nóg af skotfærum og vopnum og ekki nægilega vel þjálfaðar hersveitir,“ sagði Zelenskyy.
Hann sagði einnig að Rússum hafi gefist góður tími til að byggja varnarlínur sínar upp vegna þess að sókninni seinkaði. Þetta hafi neytt Úkraínumenn til að sýna enn meiri varkárni í sókn sinni. Hann sagði Úkraínumenn geti nú tekið silkihanskana af sér í sókninni því þeir hafi fengið fleiri tæki til jarðsprengjueyðinga.