Lyfjastofnun Evrópu hefur hafið rannsókn um möguleg tengsl milli þyngdarstjórnunarlyfja og sjálfsvígs- og sjálfsskaðahugsana á eftir tilkynningu frá Lyfjastofnun Íslands.
BBC greinir frá og segir Lyfjastofnun Íslands hafa sett sig í samband við Lyfjastofnun Evrópu vegna þriggja atvika hér á landi, ekki er þó greint frá hvenær atvikin áttu sér stað. Atvikin varða tvo einstaklinga sem þjáðust af sjálfsvígshugsunum, annar var á þyngdarstjórnunarlyfinu Ozempic og hinn á Saxenda. Eitt tilvik varðar einstakling sem þjáðist af sjálfsskaðahugsunum á meðan hann var á Saxenda.
Ozempic er fyrst og fremst hugsað fyrir fólk með sykursýki og hefur verið samþykkt til notkunar hjá fullorðnum með ófullnægjandi stjórn á sykursýki af tegund 2 sem viðbót við mataræði og hreyfingu. Saxenda er lyf sem stuðlar að þyngdartapi og inniheldur virka efnið liraglútíð.
Mikil eftirspurn hefur verið eftir lyfjunum hér á landi og víðar eftir að þekktir einstaklingar greindu frá miklu þyngdartapi eftir notkun lyfjanna. Hefur þessi aukna eftirspurn valdið því að skortur er á lyfjunum víða, meðal annars hérlendis.
„Lyfjastofnun Evrópu mun upplýsa um málið þegar frekari niðurstöður liggja fyrir,“ segir í frétt BBC. Þar segir enn fremyur á lyfseðli lyfjanna sé fólk beðið um að fylgjast með breytingum á andlegri heilsu, sérstaklega skyndilegum breytingum á lundarfari, hegðun, hugsunum eða tilfinningum. Finni fólk fyrir einhverjum breytingum sem séu nýjar, verri eða valdi þeim áhyggjum eigi fólk hafa strax samband við lækni.
Ef einstaklingar glíma við sjálfsvígshugsanir er bent á Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa samband við Píeta-samtökin sem veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.