Ásakanir ganga á víxl milli Rússa og Úkraínumanna að verið sé að undirbúa árás á Zaporizhzhia-kjarnorkuverið, hið stærsta í Evrópu, sem verið hefur undir stjórn innrásarhersins frá upphafi átakanna.
Úkraínumenn sökuðu Rússa um að vera í óðaönn að koma fyrir sprengjum í kjarnorkuverinu og hyggðust sprengja það í loft upp. Volodymyr Zelensky, Úkraínuforseti, greindi frá því á Twitter-síðu sinni að hann hafði greint Emmanuel Macron, forseta Frakklands, frá meintum ögrunum Rússa og hvað hann teldi þá hafa í hyggju.
Sagði forsetinn að Rússar hefðu komið fyrir sprengiefni á þaki kjarnorkuversins og að innan tíðar yrði það sprengt í loft upp til þess að láta það líta út sem svo að Úkraínumenn hafi staðið fyrir árásinni.
Rússar hafa hins vegar sagt að það séu Úkraínumenn sem ráðgeri árásir á kjarnorkuverið og að ætlunin sé að gera Rússa að blórabögglum.
Hvorki Úkraínumenn né Rússar hafa deilt nokkru sem styður við fullyrðingar þeirra.
Alþjóðakjarnorkumálastofnunin, IAEA, hefur í rúmt ár reynt að ná samningum milli stríðandi fylkinga um að kjarnorkuverið yrði ekki bitbein þeirra í stríðinu til þess að koma í veg fyrir kjarnorkuslys. Rafael Grossi, forstjóri stofnunarinnar, hefur heimsótt kjarnorkuverið þrisvar sinnum í þeim tilgangi en þær tilraunir hafa reynst árangurslausar hingað til.
Talsmaður Úkraínuforseta, Mykhailo Podolyak, gagnrýni framgöngu Grossi harðlega og sagði hann hafa verið að gaufast eitthvað í málinu frekar en að taka það föstum tökum.