Þriðja daginn í röð geisa óeirðir í Frakklandi vegna meintrar aftöku lögreglumanns á sautján ára dreng og fer umfang þeirra vaxandi.
Mikil reiði geisar í landinu eftir að hinn sautján ára gamli Naël M, sem er af algírskum uppruna, var skotinn til bana af lögreglumanni í kjölfar þess að hann neitaði að stöðva bifreið sína við eftirlit umferðarlögreglu. Myndband af atvikinu, sem hefur farið sem eldur um sinu á samfélagsmiðlum, hefur vakið mikla reiði en þar sést lögreglumaður skjóta drenginn af stuttu færi þar sem hann situr við stýri bifreiðarinnar sem stöðvast stuttu síðar. Hefur atburðarrásinni verið líkt við hreina aftöku á drengnum.
Lögreglumaðurinn sem skaut drenginn hefur verið ákærður fyrir morð en hann er sagður miður sín yfir atvikinu og hefur beðið fjölskyldu drengsins afsökunar.
Sjá einnig: Óeirðir í París eftir að lögregla skaut 17 ára dreng til bana – Atvikinu lýst sem aftöku
Morðið var olía á eld varðandi deilur sem hafa kraumað milli lögreglu og innflytjenda en hinir síðarnefndu saka lögreglumenn um að beita sér sérstaklega gegn þeim með ólögmætum hætti.
Í nótt var mótmælt um allt Frakkland og brutust óeirðir út víða. Samkvæmt umfjöllun BBC voru 667 einstaklingar handteknir í nótt en alls voru kallaðir út 40 þúsund lögreglumenn til að halda mótmælendum í skefjum. Í París var brotist inn í verslanir og kveikt í bílum.
Óeirðirnar eru komnar á það stig að til greina kemur að lýsa yfir neyðarástandi í landinu og mun ríkistjórn Emmanuel Macron, forseta Frakklands, funda um málið í dag. Sjálfur hefur forsetinn mátt sæta gagnrýni því hann skellti sér á tónleika með bresku poppstjörnunni Elton John í gær á meðan ástandið á götum úti var víða óbærilegt.