Jótlandspósturinn hefur eftir Claus Mathiesen, hernaðarsérfræðingi við danska varnarmálaskólann, að í hótuninni felist hætta á að stríðið breiðist út og stigmagnist.
Pútín kom fram á ráðstefnunni til að ræða um rússnesk efnahagsmál en ekki leið á löngu þar til hann beindi orðum sínum að stríðinu í Úkraínu. Í lokin á þeirri umræðu beindi hann orðum sínum að vestrænum bandamönnum Úkraínu og NATO og ræddi um hugsanlega afhendingu á F-16 vélum til Úkraínumanna.
Hann sagði að það að láta Úkraínu fá slíkar vélar muni valda „alvarlegri hættu á að NATO dragist enn frekar inn í átökin á milli Rússlands og Úkraínu“. Hann sagði einnig að hann sé reiðubúinn til að láta vélarnar „brenna“, hvort sem þær enda í Úkraínu eða eru á leið til Úkraínu og jafnvel þótt þær séu á NATO-svæði.
Bein rússnesk árás á NATO-ríki virkjar fimmtu greinina svokölluðu, hinn svokallaða skyttueið sem kveður á um að árás á eitt NATO-ríki sé árás á þau öll. Greinin skuldbindur önnur NATO-ríki til að bregðast við ef ráðist er á eitt þeirra.
Claus Mathiesen tjáði sig um færslu The Moscow Times um málið og sagði að það væri heimskulegt af Rússum að gera árás á F-16 vélar á yfirráðasvæði NATO. Það myndi valda hættu á að stríðið myndi breiðast út og stigmagnast. „Það held ég að menn viti einnig í Kreml,“ skrifaði hann.