Stórbruni er á Strandgötu í Hafnarfirði og voru slökkviliðsbílar ekki mættir á vettvang þegar DV bárust fyrstu myndir, útkall barst um klukkan 20.30.
Mikinn reyk leggur frá svæðinu og sést hann víða á höfuðborgarsvæðinu.
Eldurinn logar í gamla íshúsinu við Hafnarfjarðarhöfn, þar sem skipasmíðastöðin Dröfn var til húsa. Húsið hefur staðið autt í nokkurn tíma.
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu sendi allar fjórar stöðvar á vettvang og vegna vaktaskipta voru enn fleiri kallaðir á staðinn segir í frétt Mbl.is. Slökkvilið hófst handa við að slökkva eldinn utan frá með slöngum og mónitora sér til halds og trausts. Eins og staðan var leit fyrir að um altjón sé að ræða.
Vélsmiðja hefur verið starfandi í húsinu sem hér um ræðir en húsið sjálft er í eigu hjónanna Guðmundu Þórunnar Gísladóttur og Haraldar Reynis Jónssonar. Þau eru stödd erlendis. Guðmunda upplýsti í örstuttu spjalli við blaðamann að áður hefði farið fram viðhald skipa og skipasmíðar í húsinu. Hún harmar brunann en vill ekki tjá sig um málið að öðru leyti en því að tjónið sé mikið.
Fréttin hefur verið uppfærð.