G. Andri Bergmann, forstjóri Procure Home, segir að fyrirtæki hans hafi orðið fyrir villandi umfjöllun á samfélagsmiðlum. Erfitt geti reynst að verja sig þegar slíkt kemur upp. Þetta kemur fram í aðsendri á Vísir.is í gær.
Yfirskrift greinarinnar er „Þetta er ekki eðlileg hegðun“ en Andri segir Lúkasar-heilkennið vera sprelllifandi í umræðu af þessu tagi og vísar þar til mikils uppnáms sem varð í netheimum árið 2007 er sú flökkusaga fór á kreik að ungur maður hefði sparkað hund til ólífis á Akureyri en hundurinn reyndist síðan sprelllifandi:
„Á spjallborðum og facebook hópum sjáum við spjallara æ oftar koma fram í HÁSTÖFUM hvar hópfélagar eru beðnir að vara sig á þessu eða hinu fyrirtækinu. Já eða einstaklingnum. Svo fylgir einhliða frásögn, mistúlkaðar staðreyndir og stundum hreinn uppspuni.
Erfitt getur þarna reynst að bera hönd fyrir höfuð sér. Og sé það reynt ýfir það upp hegðun innan hópsins sem helst minnir á kúgun einræðisríkja hvar aðeins er leyfð skoðun sem er einræðisherranum þóknanleg. Í þessu tilviki þeim/þeirri sem upphaflega setur fram tilfinningaríkt hástafahróp um sniðgöngu.
Það má með réttu kalla þetta Lúkasar-heilkennið. Enda hér búið að rannsaka morðið, ákveða morðingjann, dæma og fleyta kertum.
Allt þó hundurinn sé sprell-lifandi.“
Andri segir að gagnrýni eigi rétt á sér en opinber smánun eigi ekkert skylt við gagnrýni:
„Fyrirtæki mitt varð fyrir árás í stórum spjallhóp á Facebook. Viðskiptavinur VARAÐI VIÐ FYRIRTÆKINU í hástöfum og sagði farir sínar ekki sléttar. Hún fór þó í öllum meginatriðum á skjön við sannleikann og hagræddi atvikum á þann hátt að ætla mætti að við hefðum myrt hund. Í enfeldni minni fór ég inn í umræðuna, leiðrétti aðdróttanir og varði mig og mitt. En ég var umsvifalaust tjargaður, velt upp úr fiðri og vísað úr hænsnahúsinu.“
Andri segir að í þessum umræðum hafi sannleikurinn ekki skipt neinu máli heldur hafi þarna farið fram keppni í að rægja hann og fyrirtækið sem mest. Þetta segir hann vera langt frá því einsdæmi og hann telur að samfélagið þurfi að snúast gegn nethegðun af þessu tagi:
„Ég og fyrirtæki mitt erum ekkert einsdæmi og er nú svo komið í samfélagi okkar að nóg er að koma fram með órökstuddar dylgjur á hendur fólki eða fyrirtækjum. Lífsviðurværi er rakkað niður og fólk smánað ef það er eða ætlar sér í viðskipti eða á tónleika. Minna metnir fjölmiðlar á smellaveiðum gera sér svo mat úr öllu saman, hjarðhegðunin fær viðurkenningu og vélin mallar áfram full vandlætingar.“
„Við hljótum að sjá að þetta er ekki eðlileg hegðun og við sem samfélag verðum að snúa við blaðinu áður en það verður of seint. Við verðum að losna undan þessu hatri sem einkennir alla umræðu á samfélagsmiðlum. Við verðum að losna undan þessari pólariseringu og við verðum að gera þá kröfu til ríkisstyrktra fjölmiðla að þeir leiði þessar breytingar.“