fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fréttir

Guðrún lýsir ótrúlegri þrautagöngu sinni vegna dularfullrar skuldar við Landsbankann – „Ég er ekkert einsdæmi ég veit það alveg“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 23. febrúar 2023 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðrún Björgvinsdóttir, segir farir sínar ekki sléttar af samskiptum sínum við Landsbankann undanfarin ár. Hún deildi stórfurðulegri frásögn sinni með Bítinu á Bylgjunni í vikunni, en hart var gengið að henni að greiða skuld sem kom svo á daginn að var ekki til. 

Guðrún segir að söguna megi rekja til áranna 2012/2013 en þá hafi hún lent í vandræðum í kjölfar hrunsins, eins og margir, og meðal annars misst íbúð sem hún hafði átt. Taldi hún að í kjölfar þess hafi farið í gang ákveðið uppgjör hjá banka hennar og hún væri laus undan skuldunum.

Árið 2018 barst henni þó innheimtubréf frá innheimtufyrirtækinu Motus. Þar var henni greint frá því að skuld að fjárhæð 1,9 milljón væri í innheimtu hjá þeim.

Svo leið og beið þar til í apríl 2022 þegar hún fékk aftur bréf þar sem sagði að þar sem Guðrún hefði ekki greitt skuldina og ekki samið um greiðslu hennar væri fyrirtækið að fara út í harðari innheimtuaðgerðir.

Guðrún tók fram að hún sé einstæð móðir á örorku og hafði engin tök á að greiða skuldina sem árið 2022 var komin í tæpar 5 milljónir.

„Þetta er búið að hanga svo yfir mér. Eins og ég segi – svefnlausar nætur, áhyggjur af mörgu hvað þá þessu, þetta bættist þarna bara ofan á. Ég hringi í Motus og spyr þá hvað ég eigi eiginlega að gera.“ 

Aldrei felldar niður skuldir í Landsbankanum

Guðrún útskýrði í símanum að hún væri á örorku í kjölfar slyss og hefði ekkert svigrúm til að semja um skuldina. Þar var henni bent á að leita til Landsbankans, sem var eigandi skuldarinnar.

„Þar tekur á móti mér ungur maður og ég stend hágrátandi fyrir framan hann og spyr hvað þeir ætli að gera.“ 

Guðrún var þarna orðin örvæntingarfull. Hún væri vegna skuldarinnar ávallt á svörtum lista og gæti því ekki fengið neinar fyrirgreiðslur. Hún væri öryrki í endurhæfingu og vildi bara vita hvað bankinn ætlaði sér að gera.

Ungi maðurinn lofaði að skoða málið og hafði svo samband við Guðrúnu síðar sama dag og sagði að ekkert væri hægt að koma til móts við hana. „Þetta er bara þín skuld og þú verður að semja um hana.“

Guðrún spurði þá á móti hvort það væri í alvörunni ekkert sem hægt væri að gera, hvort það væri ekki hægt að fella skuldina niður eða eitthvað. Þá fékk hún svarið: „Það eru aldrei felldar niður skuldir í Landsbankanum.“

Guðrún gafst þó ekki upp. Hún fékk útibússtjórann til að hringja í sig og sú gat ekki sagt Guðrúnu hversu há skuldin var. Það þótti Guðrúnu skrítið. Ætti bankinn ekki að hafa þessar upplýsingar í kerfum sínum? Útibússtjórinn gat þó ekkert hjálpað.

Reyndi að leita til stjórnmálamanna eftir aðstoð

Áfram hélt Guðrún þó að berjast. Meðal annars reyndi hún að ná sambandi við Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra með því að hringja upp í Valhöll. Það tókst henni þó ekki.

„Ég vildi bara fá svör – hvað þeir [bankinn] vildu? […] Það var búið að fella niður milljarða þarna í þjóðfélaginu afhverju eru þið að elta fjögurra barna móður í Grafarvogi sem á ekki neitt?“

Guðrún var á svörtum listum vegna skuldarinnar og gat ekkert eignast án þess að eiga það á hættu að bankinn gengi að því til fullnustu skuldarinnar. Hún var komin í félagslegt húsnæði út af skuldinni og staðan ekki góð.

Guðrún reyndi aftur að leita á náðir stjórnmálamanna. Að þessu sinni til konu, sem hún nafngreinir ekki, sem var að auglýsa sig fyrir kosningarnar í fyrra. Sú kona hafi svarað Guðrúnu og hringt í hana. Hún skoðaði málin og veitti því eftirtekt að margt var skrítið við þessa meintu skuld sem Guðrún átti að hafa skuldað.

Alþingiskonan spurði Guðrúnu um greiðsluseðla.

„Þá kom ég alveg af fjöllum því ég hefði enga greiðsluseðla fengið“

Alþingiskonan spurði líka um skattaskýrslur frá fyrri árum og við skoðun á þeim kom í ljós að skuldin hafði ekki komið fram á skattaskýrslu síðan árið 2012.

„Þannig þetta var allt mjög merkilegt“

Fékk símtalið sem breytti öllu

Guðrún átti þá fund með öðrum lögfræðingi og sá sagði að hér væru á ferðinni mistök, og ekki venjuleg mistök heldur stór.

Guðrún leitaði þá til Landsbankans aftur og óskaði eftir greiðsluseðlum fyrir þessa meintu skuld. Þar var henni greint frá því að ekki væri hægt að svara henni um þetta mál í gegnum síma og yrði hún að mæta í útibúið. Þetta fannst Guðrúnu skrítið. Enn undarlegra þótti henni þó að þegar hún kom í útibúið bað starfsmaður hana um frest til að finna greiðsluseðlana.

Í raun hefði þetta verið ein hringavitleysa. Bankinn hafði sagt að greiðsluseðlarnir fengjust hjá löginnheimtunni, lögheimtan sagði þá hjá Motus og Motus hafi sagt þá hjá bankanum.“

Síðan liðu nokkrir dagar og þá fékk Guðrún símtal frá bankanum.

„Svo hringir Landsbankinn, rétt fyrir fjögur, og segir: Guðrún – nú erum við með góðar fréttir. Það er búið að fella niður skuldina. “

Guðrún varð kjaftstopp og þakkaði fyrir sig enda frábærar fréttir. En svo fór hún að hugsa aðeins betur út í þetta og hvað þetta væri allt furðulegt.

Margt undarlegt kom á daginn

Hún ákvað því að fara aftur í Landsbankann til að fá staðfest að skuldin væri niðurfelld. Sú ferð tók hana klukkustund því starfsmenn vissu ekki hvernig þeir ættu að útbúa staðfestinguna og á daginn kom að skuldin hefði verið felld niður árið 2015, eða þremur árum áður en hún fékk innheimtubréfið frá Motus.

Hún ákvað þá að kíkja á feril málsins inn á sínum síðum hjá Motus en þá var allt um skuldina horfið.

Það sem meira var þá fann hún tölvupósta frá Motus frá 2019 um að skuldin væri fyrnd. Engu að síður fékk hún innheimtubréf árið 2022. Fyrir skuld sem var felld niður 2015, fyrnd 2019 og ekki komið fram á skattskýrslu síðan 2012.

Guðrún hugsaði til baka á öll samskipti sín við bankann og Motus þar sem tönglast var á því að hún ætti þessa skuld og þyrfti að greiða. Enginn hafi á þessu langa ferli farið og hreinlega fundið út að skuldin væri ekki til. Guðrún veltir fyrir sér hver staðan hefði verið hefði hún bara greitt skuldina, hefði hún verið í þeirri stöðu og veltir fyrir sér hvort hún sé sú eina sem hafi lent í þessari stöðu.

Hún hafi farið með lögfræðingi sínum á fund í bankanum og þar hafi bara verið talað niður til hennar.

„Þeir segja bara þetta eru mistök nema lögfræðingurinn minn fær fund með Landsbankanum og þá á fundinum er bara talað með hroka og virðingarleysi og þeim, hvað á ég að segja, var svo mikið í mun að reyna að niðurlægja mann frekar en að reyna að fá mann að tala málefnalega […]Þeir spurðu bara hvað viltu að við biðjumst afsökunar oft?“

Guðrún furðar sig á því að árum saman hafi hún verið með þessa meintu skuld á bakinu og reynt að fá aðstoð og allan þann tíma hafi starfsmenn í bankanum horft á skjá fyrir framan sig sem hafi verið auður en enginn sagt neitt.

„Ég er ekkert einsdæmi ég veit það alveg“

Eftir standa margar spurningar og Guðrún segir að málinu sé ekki lokið af sinni hálfan þó að bankinn vilji ekkert ræða það frekar.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Ragnar fór úr rannsókn á ráni í mótmælin við Alþingi – „Ég get ekki bakkað úr svona aðstæðum og ég ætla ekki að skilja þá eftir“

Ragnar fór úr rannsókn á ráni í mótmælin við Alþingi – „Ég get ekki bakkað úr svona aðstæðum og ég ætla ekki að skilja þá eftir“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Gagnrýnir Þorstein fyrir ummæli um verkakonu í frystihúsi – „En hvert skyldi nú sannleiksgildi þessara orða vera?“

Gagnrýnir Þorstein fyrir ummæli um verkakonu í frystihúsi – „En hvert skyldi nú sannleiksgildi þessara orða vera?“
Fréttir
Í gær

Þetta eru helstu leikendurnir í baráttunni um framtíð Sýrlands

Þetta eru helstu leikendurnir í baráttunni um framtíð Sýrlands
Fréttir
Í gær

Eldri borgari vann 70 milljónir og nýbakaður tvíburapabbi 35 milljónir í Happdrætti Háskólans

Eldri borgari vann 70 milljónir og nýbakaður tvíburapabbi 35 milljónir í Happdrætti Háskólans
Fréttir
Í gær

Var með mikið magn af OxyContin innvortis

Var með mikið magn af OxyContin innvortis
Fréttir
Í gær

Efling boðar til aðgerða gegn 100 veitingastöðum

Efling boðar til aðgerða gegn 100 veitingastöðum
Fréttir
Í gær

Vodafone byrjar að rukka mánaðargjöld fyrir netföng

Vodafone byrjar að rukka mánaðargjöld fyrir netföng
Fréttir
Í gær

Drápshundarnir í Langholtshverfi hafa drepið ketti og ráðist á fólk – „Hundarnir endurspegla eigendurna“

Drápshundarnir í Langholtshverfi hafa drepið ketti og ráðist á fólk – „Hundarnir endurspegla eigendurna“