Kirill Kuzenkov, sem búsettur er í Tyrklandi, valdi Skógafoss fyrir hugmynd sína um nýstárlegan 45 hæða skýjakljúf. Segir Kuzenkov að verkefnið hafi tekið þrjá daga frá því að hugmyndin fæddist þar til hún var orðin að veruleika í stafrænu formi, á myndum og myndbandi.
Hann segist hafa gleymt rökhugsun og hefðbundnum lausnum og reynt að finna áhugavert form fyrir skýjakljúf. Valdi hann þrjá turna sem sameinast svo á toppnum.
„Lögun skýjakljúfsins gerir það kleift að setja hann í frekar óvenjulegar aðstæður. Bygginguna er hægt að nota í miklum hæðarhalla, í neðri hluta skýjakljúfsins er byggt á tveimur turnum og toppurinn hvílir á þeim þriðja. Til viðbótar við þessa óvenjulegu uppsetningu getur skýjakljúfurinn haft þrjá jafna turna fyrir staðsetningu á sléttu yfirborði. Þrátt fyrir það væri hægt að setja skýjakljúfinn yfir merka hluti, garða eða krossgötur,“ segir hann um skýjakljúfinn, sem trónir yfir Skógafossi.
Skógafoss er ein af náttúruperlum landsins og á meðal mest sóttu ferðamannastaða landsins, enda ratar hann ávallt á lista yfir 10 áhugaverðustu staði landsins.
Kuzenkov virðist einnig búinn að þaulhugsa innra byrði byggingarinnar þar sem hann áætlar íbúðir, hótel og útivistarsvæði. Segir hann hvern turn ekki stóran að flatarmáli, 15 x 26 metra, og því ekki bera margar lyftur. Þær sé heldur ekki hægt að setja fyrir ofan 35 hæð turnanna, hinsvegar sé lyfta í miðrýminu frá andyri að efstu hæð (hæðir 35-45).
Og nú er stóra spurningin hvort um er að ræða frábæra hugmynd fyrir fjárfesta sem yrði til að auka aðsókn ferðamanna til landsins og sér í lagi að Skógafossi, eða hreinlega klikkun sem á best heima bara á rafræna teikniborðinu.