Þann 1. mars næstkomandi verður fyrirtaka í Héraðsdómi Reykjavíkur í skattsvikamáli gegn Gunnari Erni Gunnarssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Hópferða Ellerts, sem er afskráð. Ljóst er að gangur málsins hefur verið afar hægur í kerfinu því meint skattsvik varða rekstrarárin 2016-2017 og fyrirtækið varð gjaldþrota árið 2017.
DV hefur ákæru í málinu undir höndum og samkvæmt henni nema meint skattsvik ríflega 25 milljónum króna og skiptast nokkurn veginn jafnt í vanskil á virðisaukaskatti annars vegar og staðgreiðslu skatta af launum starfsmanna hins vegar.
Málið hefur tengsl við sérstætt deilumál sem var áberandi í fjölmiðlum árið 2017 og snýst um heiti fyrirtækisins, Hópferðir Ellerts. Fyrirtækið hét áður Sagatours ehf. en breytt var um nafn á því rétt fyrir gjaldþrot þess. Eigendur fyrirtækisins Hópferðir ehf, sem var keppinautur Sagatours, héldu því fram að nafnbreytingin hefði verið gerð í hefndarskyni við annan eiganda hópferða, Ellert Scheving Markússon. Ellert sá sig knúinn til að stíga fram í Facebook-hópnum Fjölmiðlanördar, haustið 2017, og sverja af sér öll tengsl við fyrirtækið Hópferðir Ellerts. „Eigendur þess félags hafa vegna óvildar í minn garð breytt nafni Sagatours ehf. í Hópferðir Ellerts ehf. og stofnað nýja kt. fyrir Sagatours, líklega til þess eins að slá ryki í augun á fólki og láta líta úr fyrir að mitt fyrirtæki sé komið í þrot, en svo er ekki og hvorki ég né fyrirtæki mitt Hópferðir ehf. hefur ekkert með þetta gjaldþrot að gera,“ segir í þessari gömlu færslu Ellert.
DV fjallaði ítarlega um málið á sínum tíma.
Samkvæmt ofannefndri frétt virðist hafa verið um að ræða einhvers konar hefndarráðstöfun vegna þess að samruni fyritækjanna Sagatours og Hópferða hafði ekki gengið eftir. Ellert og eiginkona hans, Rósa Ólafsdóttir, sökuðu eigendur Sagatours um „ótrúlega lágkúru“. Eigendur Sagatours héldu því aftur á móti fram að þeir hefðu orðið fyrir miklu fjárhagstjóni vegna þess að ekkert varð úr samstarfinu. Aðilum bar ekki saman um hvort ætti sök á því að upp úr slitnaði.
Rétt er að ítreka það hér að Ellert Scheving Markússon tengist með engum hætti hinu gjaldþrota fyrirtæki, Hópferðir Ellerts.