Maður að nafni Andrei Buhhanevits var ráðinn sem undirverktaki að byggingu nýs Landspítala. Dómur féll yfir honum í Héraðsdómi Reykjaness í október síðastliðnum og var hann dæmdur í 16 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skattsvik og til greiðslu 177 milljóna króna sekt í ríkissjóð.
Dómurinn varð til þess að sagt var upp samningi við undirverktakann og annar ráðinn í hans stað, Knútur Knútsson, hjá Aflbindingu. Sá hefur verið dæmdur í sjö mánaða fangelsi fyrir skattsvik og til greiðslu 70 milljóna króna sektar.
Þetta kemur fram í grein eftir Örn Gunnlaugsson í Morgunblaðinu í dag en Örn segir um síðari undirverktakann við Landspítala-bygginguna, Knút Knútsson: „Þessi aðili á sér blóði drifna slóð gjaldþrota fyrirtækja í áratugi og er hann mjög vel þekktur meðal stjórnenda rótgróinna byggingafyrirtækja sem þrátt fyrir borðleggjandi staðreyndir um brotastarfsemi ráða slíka aðila sem þennan síendurtekið til að sinna verkefnum fyrir sig.“
Aðalverktaki við byggingu nýs Landspítala er Eykt.
Örn gagnrýnir að menn með vægast sagt vafasaman feril komi að stórum byggingaverkefnum fyrir opinbera aðila. Hann titlar sig sjálfan sem fyrrverandi atvinnurekanda en hann segir í samtali við DV að hann hafi ákveðið að hætta starfsemi árið 2018 því hann vildi ekki lengur keppa á markaði við menn sem stunda skattsvik og önnur fjársvik og halda þannig niðri verði á verkefnum. Aldrei hafi komið til greina af hans hálfu að standa ekki skil á skattgreiðslum og öðrum lögboðnum gjöldum, hvað þá að fá greitt svart. Í mörgum tilvikum séu forsendur „hagstæðra“ tilboða í stór verkefni þær að viðkomandi aðilar stundi fjársvik og standi ekki skil á lögboðnum greiðslum.
Örn segir í grein sinni:
„Hér á landi geta fyrirtæki keypt sér glæsilegar viðurkenningar til opinberrar birtingar og kallast þá fyrirmyndar- eða framúrskarandi. Til að öðlast slíka viðurkenningu eru upplýsingar úr síðustu ársreikningum notaðar hráar og án þess að grafið sé djúpt í reksturinn sjálfan sem slíkan.
Hvað fyrirtæki í byggingastarfsemi varðar þá má sjá ef grannt er skoðað að mörg þeirra stærri eru þrátt fyrir nefnda viðurkenningu langt frá því að vera til fyrirmyndar. Forsvarsmenn þeirra eru jafnvel hinir verstu skúrkar og samfélagslegir skemmdarvargar þó lauslegur lestur ársreikninga bendi ekki til neins slíks. Nokkurs konar pýramídasvindl er mjög algengt í byggingastarfsemi en þar notast stórir aðalverktakar sem hreppa verk í útboðum við undirverktaka til að sinna ýmsum verkum og eru verk á vegum ríkis og sveitarfélaga alls engin undantekning í þeim efnum.“
Í grein sinni og samtali við DV lýsir Örn því að ólögleg starfsemi þrífist meðal annars í skjóli þess að opinberir aðilar hirði ekki um lögbrot undirverktaka sem ráðnir eru til dýrra framkvæmda. Hann segir ennfremur:
„Með viðskiptum við þessa lögbrjóta þrífst starfsemin með blómlegasta hætti en ljóst má vera að ef enginn skipti við þá væri starfseminni sjálfhætt. Verjandi beggja aðilanna að framan er sami lögmaðurinn sem var viðskiptafélagi þess fyrrnefnda í eldra félagi sem búið er að taka til skipta. Þá er rétt að fram komi að nú hefur sá í fyrrnefnda dóminum tekið að sér verkefni fyrir aðalverktaka skólabyggingar á vegum Reykjanesbæjar en hann er helmingshluthafi í því félagi sem sér um uppslátt og járnbendingu þar. Þá eru verkefni sem þekktir aðalverktakar sinna fyrir Isavia með þrjóta sem þessa í verkefnum fyrir sig og eru verkkaupar vel meðvitaðir um hvernig í pottinn er búið.“
Örn segist hafa upplýst verkkaupendur brotamannanna um feril þeirra en ekki fengið efnisleg viðbrögð. Hann bendir jafnframt á að áðurnefndir brotamenn og fleiri borgi ekki himinháar sektir sínar en gangi lausir og haldi áfram að taka að sér stór verkefni í byggingabransanum. Þannig blómstri lögbrotin áfram. Í sumum tilvikum séu verkkaupendurnir ríki og sveitarfélög.