Þeir tróðu sér inn í aftursæti bíls fyrir utan Hagkaup í Skeifunni, misþyrmdu parinu í bílnum, frelssviptu þau og neyddu annað þeirra til að millifæra inn á sig 780 þúsund krónur. Vignir Þór Ólafsson, maður á 40. aldursári, og yngri maður, Kristófel Axel Smith Axelsson, fæddur 1998, hafa nú verið sakfelldir fyrir þetta brot, sem framið var þann 16. apríl árið 2020.
DV greindi frá málinu í september 2022. Mennirnir voru sakaðir um að hafa svipt parið frelsi sínu með því að setjast í aftursæti bíls þeirra er hún var kyrrstæð fyrir utan Hagkaup í Skeifunni. Ofbeldið stóð yfir í um klukkustund en brotinu er lýst svo í ákæru:
„Inni í bifreiðinni lögðu ákærðu hníf að hálsi þeirra, kýldu A í hægra gagnaugað og B eitt skipti í gagnaugað og gáfu henni einnig olnbogaskot í gagnaugað, hótuðu að stinga þau með sprautunál og höfðu í lífláts- og líkamsmeiðingarhótunum við þau. Ákærðu skipuðu A að aka bifreiðinni af stað og stöðva bifreiðina við Glæsibæ, þar sem annar ákærðu tók við akstri bifreiðarinnar og ók henni í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn í Laugardal, þar sem ákærðu þvinguðu A til að millifæra 780.000 kr. inn á reikning ákærða Kristófers. Þaðan sögðu þeir A að aka bifreiðinni að bifreiðaplani við Metro við Suðurlandsbraut þar sem ákærðu tóku símana af A og B, annars vegar iPhone X síma og hins vegar iPhone 11, auk þess sem þeir tóku kveikjuláslykla bifreiðarinnar áður en þeir yfirgáfu hana. Af framangreindu hlaut B vægan heilahristing.“
Báðir mennirnir eiga töluverðan sakaferil að baki. Þeir játuðu brot sín og lýstu yfir iðrun og „vilja til að ná bata af fíknisjúkdómi sínum“ eins og segir í dómnum.
Karlmaðurinn sem varð fyrir árás þeirra félaga krafðist samtals 1.480.000 króna, þar af eru 700.000 krónur miskabætur en 780.000 eru upphæðin sem hann var neyddur til að millifæra af reikningi sínum. Konan krafðist 700 þúsund króna í miskabætur.
Mennirnir voru hvor um sig dæmdir í 15 mánaða fangelsi. Dæmdar bætur voru nálægt kröfum brotaþolanna. Þurfa þeir að greiða manninum 1.380.000 krónur og konunni 600.000 krónur.