Versluninni Söstrene Grene í Smáralind var lokað um fjögur-leytið í gær í kjölfar óhugnanlegs atviks sem átti sér stað þar inni.
Kona sem hafði samband við DV segir mann þar hafa skorið sig á úlnlið með hönnunarhníf úr verslunni. Þær upplýsingar eru ekki staðfestar en Fréttablaðið greinir frá því í morgun að maður hafi reynt að taka eigið líf í verslun í Smáralind í gær. Hann hafi verið fluttur á slysadeild eftir að hafa skaðað sjálfan sig í verslun.
Í fréttinni segir:
„Gunnar Hilmarsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir atvikið hafa átt sér stað á tíma þar sem töluverður fjöldi er í verslunarmiðstöðinni. Hann segir starfsfólki verslunarinnar og Smáralindar hafa verið leiðbeint um það hvernig þau geti sótt sér áfallahjálp hjá Rauða krossinum.
Sveinn Stefánsson þjónustustjóri hjá Smáralind segir ákveðna ferla fara í gang þegar slíkt gerist í verslunarmiðstöðinni en vildi ekki frekar tjá sig um málið.“
DV náði sambandi við Aðalstein Þórarinsson, einn eigenda Söstrene Grene, sem staðfestir atvikið en getur ekki fullyrt að um sjálfsvígstilraun hafi verið að ræða, frá sínum sjónarhóli.
„Við ákváðum að gera það,“ segir Aðalsteinn, aðspurður um hvort versluninni hafi verið lokað. „Ekkert okkar sá hvað gerðist en maðurinn bað um hálp og okkar fyrstu viðbrögð voru að hringja í 112,“ segir hann og staðfestir að lögregla og sjúkralið hafi komið á vettvang. Hlúð var að manninum og hann fluttur á slysadeild. „Það var hlúð að manninum eins og eftir hvert annað slys.“
Aðalsteinn segir að töluvert blóð hafi verið á vettvangi og þau hafi þurft að þrífa upp blóð af góflinu. Hann segir að það hafi verið forgangsmál að afla manninum hjálpar og síðan að hlúa að starfsfólkinu. „Við héldum bara vel utan um hvert annað, svona til að byrja með,“ segir Aðalsteinn og staðfestir að leitað verði áfallahjálpar fyrir starfsfólk sem var á staðnum. „Við öflum okkur upplýsinga um hvernig best sé að standa að því og það er bara í vinnslu, það eru ýmsar leiðir í boði,“ segir Aðalsteinn, en starfsemi verslunarinnar er nú með eðlilegum hætti.
Glímir þú við sjálfsvíghugsanir ráðleggjum við þér að ræða málin við sérþjálfaða ráðgjafa Rauða krossins í hjálparsímanum, 1717, eða á netspjalli Rauða krossins. Einnig reka Píeta samtökin gjaldfrjálsa þjónustu fyrir fólk í sjálfsvígshættu, sem glímir við sjálfsvígshugsanir og aðstandendur þeirra.