Sölu- og veitingaskáli á Hörgslandi, sem er í nágrenni við Kirkjubæjarklaustur, stóð í ljósum logum í dag. Ragnar Johansen, eigandi staðarins, staðfesti í samtali við fréttastofu Vísis að eldurinn hafi komið upp er starfsfólk var að reyna að þíða lagnir sem voru frosnar.
Í frétt Vísis um málið segir að Taníta, dóttir Ragnars, sé á svæðinu en samkvæmt henni er ekkert eftir af byggingunni.
DV ræddi við Sigurjón Andrésson, bæjarstjóra Hornafjarðar, um málið. Sigurjón birti í dag færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann sagði það vera ófagra sjón að sjá skálann standa í ljósum logum. „Við vonum að uppbygging geti hafist sem allra fyrst enda er Hörgsland mikilvægur og vinsæll áningarstaður meðal ferðafólks,“ segir Sigurjón enn fremur í færslunni.
Sigurjón segir í samtali við DV að slökkviliðið sé ennþá á vettvangi ásamt lögreglu, verið sé að tryggja svæðið.
„Það tókst að bjarga öllum húsunum sem voru í einhverri hættu, þannig það var eingöngu sölu- og veitingaskálinn sem brann en hann brann til kaldra kola. En enginn slasaðist og það var enginn í honum þegar eldur kom upp.“
Sem fyrr segir er um mjög vinsælan stað að ræða en sem betur fer náðist að bjarga öllum húsunum fyrir utan skálann. Sigurjón segir að þar sem hægt var að forða gistihúsunum frá eldinum þá sé hægt að halda rekstrinum áfram.