fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Gunnar vonsvikinn eftir fund um mál kennarans sem smánaði hann – „Þær sögðu að þetta væri ekki einelti heldur mistök“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 10. ágúst 2022 13:39

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gunnar Ingi Ingvarsson hefur vakið landsathygli eftir að hann greindi frá því að stærðfræðikennari við Víðistaðaskóla hefði fitusmánað hann fyrir framan allan bekkinn. Gerði kennarinn það með því að nota þyngd Gunnars sem efni í lestrarreikningsdæmi og skrifaði á töfluna þyngdina og athugasemdina „Gunnar Fat boy!“

Atvikið hafði afar slæm áhrif á Gunnar og leiddi til mikils eineltis gegn honum enda tóku margir nemendur þetta upp á síma sína og dreifðu myndskeiðunum. Gunnar sneri hins vegar vörn í sókn er hann birti myndskeið frá þessari ömurlegu kennslustund á TikTok og sagði frá atvikinu. Hann greindi síðan nánar frá því í viðtali við DV.

Sjá einnig: Gunnar var smánaður af kennara í Víðistaðaskóla – Spurði hann um þyngd og skrifaði „Gunnar Fat boy!“ á töfluna

Í kjölfarið fylgdu fleiri fjölmiðlatviðtöl, meðal annars eftirminnilegt hlaðvarpsviðtal Eddu Falak við Gunnar.

Sjá einnig: Kennarinn blokkaði Gunnar eftir að hann steig fram og sagði frá eineltinu

Fyrir skömmu bárust Gunnari skilaboð frá skólastjóra Víðistaðaskóla, Hrönn Bergþórsdóttur, þess efnis að hún hefði heyrt að hann óskaði eftir fundi með sér. Tjáði hún honum að hann yrði að fara formlega leið og óska eftir fundi við mannauðsstjóra Hafnarfjarðarbæjar, Kristínu Sigrúnu Guðmundsdóttur. Gerði hann það og átti fund með þeim báðum síðastliðinn mánudag.

Sögðu kennarann ekki hafa gerst sekan um einelti

Gunnar er ekki ánægður með þennan fund og segir fátt ef nokkuð gagnlegt hafa komið fram á honum. „Þetta var tilgangslaus fundur þar sem þær máttu ekki segja mér neitt. Ég vildi spyrja um hvort þessi kennari verði rekinn því a mínu mati á hann skilið brottrekstur fyrir þessa framkomu. Ég vildi vita hvað hefði verið gert í þessu máli á sínum tíma og hvað yrði gert núna. En þær sögðust ekki geta sagt mér neitt út af einhverju persónuverndardæmi,“ segir Gunnar en honum var tjáð að hann gæti ekki fengið neinar upplýsingar um möguleg viðurlög gegn kennaranum, af persónuverndarástæðum.

Gunnar er afar ósáttur við að hvorki Hrönn né Kristín hafi viljað samsinna því að framkoma stærðfræðikennarans sé einelti. „Þær sögðu báðar að þetta væri ekki einelti af því hann gerði þetta bara einu sinni. Þetta væru mistök en ekki einelti. Ef hann hefði gert þetta tvisvar þá væri það einelti. Að þetta hafi bara verið mistök finnst mér vera kjaftæði. Þetta var mjög stórt atvik og því lífið mitt varð mjög vont út af þessu í tvö ár. En þessar konur gátu horft í augun á mér, sem hef glímt við þunglyndi og sjálfsvígshugsanir út af þessu, og sagt að þetta hafi ekki verið einelti, bara mistök.“

Gunnar segir að fundurinn hafi staðið yfir í milli hálftíma og klukkutíma en að Hrönn hafi viljað stytta hann því hún teldi að þau kæmust ekki lengra með málið. „Hrönn sagði að þessi fundur færi ekki lengra. Ég vildi rökræða þetta við þær, þennan punkt að þetta væru mistök en ekki einelti. Ég benti þeim á að þetta væri fimmtugur kennari og vinnan hans er að kenna krökkum og búa þau undir framtíðina. Ef hann gerir svona þá er það ekki bara mistök.“

Hvöttu hann til að fá útrás í kraftlyftingum

Gunnar hefur æft kraftlyftingar af kappi undanfarin ár og þannig komist í gott líkamlegt form. Á fundinum hvöttu Hrönn og Kristín hann til að fá útrás fyrir erfiðleika í fortíðinni í gegnum lyftingarnar. Auk þess sögðu þær honum að þeim þætti þetta leitt. Hins vegar er ekki hægt að segja að hann hafi verið beðinn formlega afsökunar á fundinum.

„Ég er kominn að þeim punkti að ég tel að það verði ekki gert neitt í þessu,“ segir Gunnar, sem þrátt fyrir allt er í góðum málum í dag. Kraftlyftingarnar gefa honum mikið, hann leggur stund á nám í rafeindavirkjun og er starfsmaður í Nettó. Gunnar verður 19 ára í haust.

Aðspurður segir hann að það hafi gert honum gott að ræða þetta mál við fjölmiðla en það hafi líka verið erfitt. Það sé erfitt að deila svona sögu sinni með stórum hluta af þjóðinni og hann hafi viljað leysa málið á annan hátt en að bera það á torg.

Gunnar var lagður í mikið einelti í Víðistaðaskóla, einelti sem magnaðist upp við þessa framkomu stærðfræðikennarans. Hann telur ábyrgð kennara sem tekur þátt í einelti, sem hann telur kennarann hafa gert, vera mikla, og það situr í honum að skólayfirvöld viðurkenni ekki að um einelti hafi verið að ræða.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmar harðorður um stöðuna hér á landi – „Þetta er hálf­gerð sturlun“

Sigmar harðorður um stöðuna hér á landi – „Þetta er hálf­gerð sturlun“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki