fbpx
Mánudagur 15.ágúst 2022
Fréttir

Svik Gluggasmiðjunnar: Hurðalaus sumarbústaður og gluggalaus hús – „Þeir mega ekki svíkja fleiri“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 29. júní 2022 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dómsmál og lögreglukæra eru í uppsiglingu vegna viðskipta Gluggasmiðjunnar en fyrirtækið er sakað um fjársvik sem felast í því að taka við háum staðfestingargreiðslum við pantanir verka sem aldrei eru unnin og varan aldrei afhent. Guðmundur Einarsson hefur þegar stefnt fyrirtækinu og forsvarsmenn þess móttekið stefnu frá lögfræðingi hans vegna vanefnda varðandi hurðasmíði fyrir sumarbústað Guðmundar. Nánar greinir frá þeim viðskiptum hér fyrir neðan.

Margir hafa komið að máli við DV eftir að við birtum frétt um Gluggasmiðjuna í síðustu viku.

Sjá einnig: Gluggasmiðjan sökuð um misferli – „Pantaði hjá þeim vörur í nóvember sem hafa ekki skilað sér. Þeir halda áfram að taka við pöntunum“

Þar greinir byggingaverktakinn Arnar Jónsson frá því að vörur sem hann pantaði hjá Gluggasmiðjunni í nóvember hafi ekki skilað sér. Hann hafi þurft að greiða hátt staðfestingargjald við pöntun sem hann hefur ekki fengið endurgreitt. Arnar telur að fyrirtækið sé að fara á hausinn en sé á sama tíma að safna inn greiðslum fyrir pöntunum sem aldrei verði afgreiddar: „Ég prófaði í morgun að hringja og þykjast vera annar en ég er. Þá fékk ég staðfest að þeir halda áfram að harka inn fyrir pöntunum. Þetta er óheiðarlegur leikur því ég tel víst að þeir séu á leiðinni í greiðslustöðvun,“ sagði Arnar, ómyrkur í máli, í viðtali við DV í síðustu viku.

„Það þarf að vara fólk við fyrirtækum sem leika þennan leik,“ sagði hann ennfremur. Sagði hann ljóst að Gluggasmiðjan ætli hvorki að afhenda honum vörurnar sem hann hefur pantað né endurgreiða honum staðfestingargjaldið.

Hurðarnar komu aldrei

„Þeir mega ekki svíkja fleiri,“ segir einn þeirra sem haft hafa samband við DV eftir birtingu ofangreindrar fréttar. Sumir sem telja sig svikna í viðskiptum við Gluggasmiðjuna hafa þó ekki viljað stíga fram með mál sín. Guðmundur Einarsson er þó ófeiminn við það en hann hefur nú stefnt fyrirtækinu eins og áður greinir.

Guðmundur útskýrir fyrir DV að hann hafi pantað glugga og hurðir í sumarbústað sem hann var með í smíðum, þann 29. september síðastliðinn. Verkið átti samtals að kosta 1.350.000 krónur. Gluggarnir skiluðu sér en hurðirnar ekki. Til að liðka fyrir því að hurðaefnið skilaði sér til landsins var Guðmundur beðinn um að greiða aukalega 522 þúsund krónur gegn því að gjald við gluggasmíðina, 150.000 krónur, yrði fellt niður. Staðan er sú að fyrirtækið skuldar honum núna tæplega 627.000 krónur en sumarbústaðurinn stendur hurðalaus. Á sama tíma er Gluggasmiðjan ítrekað að senda honum reikning fyrir gluggana,  þ.e. vegna gjaldsins sem átti að fella niður. Þess má geta að gluggarnir bárust fjórum mánuðum á eftir áætlun en hurðarnar virðast ekki ætla að berast. Eins og áður segir hefur Guðmundur stefnt fyrirtækinu og lögfræðingur hans hefur afhent Gluggasmiðjunni stefnuna.  (Meðfylgjandi er mynd af sumarbústað Guðmundar.)

Gluggarnir fóru aldrei í framleiðslu

Árni Tómas Árnason pantaði glugga hjá Gluggasmiðjunni á milli jóla og nýárs. Greiddi hann 450 þúsund krónur í staðfestingargjald í gegnum smið sem átti að vinna verkið fyrir hann, en sá hefur verið í viðskiptum við Gluggamiðjuna í nokkur ár.

Er verkið fór að dragast og Árni kallaði eftir skýringum þá stóð ekki á þeim: „Þeir komu með þær útskýringar að þetta væru tafir vegna Covid og síðan vegna Úkraínu-stríðsins. Síðan sá ég fréttina á DV og fá fer ég að leggja saman tvo og tvo og þetta er niðurstaðan,“ segir Árni sem telur ljóst að gluggarnir muni ekki skila sér til hans og 450 þúsund kallinn sé glatað fé.

Smiðurinn sem Árni fékk til verksins náði sambandi við sölumann hjá Gluggasmiðjunni nýlega og sá staðfesti að gluggarnir hefðu aldrei farið í framleiðslu. Er þó liðið hálft ár síðan þeir voru pantaðir.

Ókunnugur maður gerður að prókúruhafa

Framkvæmdastjóri Gluggasmiðjunnar er Krysztof Hilla. DV hefur ekki náð sambandi við hann þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Skoðun á opinberum gögnum leiðir í ljós að þann 21. júní síðastliðinn sagði Krysztof sig úr stjórn fyrirtækisins og sagði af sér sem prókúruhafi þess. Sama dag var rúmlega þrítugur maður gerður að prókúruhafa, stjórnarmanni og forráðamanni Þ.H. Innflutnings ehf, sem er eignarhaldsfélag Gluggasmiðjunnar. Samkvæmt heimildum DV er sá maður hins vegar með öllu ótengdur fyrirtækinu og er staðhæft að hér sé um fölsun að ræða og maðurinn hafi ekki gefið samþykki fyrir þessari notkun á nafni sínu. Málið er í höndum lögfræðings og verður að líkindum kært til lögreglu.

Sem fyrr segir hefur DV ekki náð sambandi við Krysztof Hilla og einnig hafa ítrekaðar tilraunir til að ná í sölustjóra fyrirtækisins, Hafstein Hilmarsson, ekki borið árangur.

DV náði hins vegar sambandi við sölumanninn, sem tjáði smiði á vegum Árna Tómasar Árnasonar að gluggarnir sem Árni pantaði hefðu aldrei farið í framleiðslu, og viðurkenndi hann í örstuttu samtali við blaðamann að ástandið hjá fyrirtækinu væri erfitt og menn væru að saka það um að standa ekki við samninga. Maðurinn vildi hins vegar ekki tjá sig frekar um málið og vísaði til stjórnenda fyrirtæksins, sem eins og áður segir, næst ekki í þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ók um á fjórum nagladekkjum og grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna og lyfja

Ók um á fjórum nagladekkjum og grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna og lyfja
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þrír í haldi lögreglu vegna hnífaárásar í nótt

Þrír í haldi lögreglu vegna hnífaárásar í nótt
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Salman Rushdie stunginn ítrekað

Salman Rushdie stunginn ítrekað
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Perla klessti á bíl í Skeifunni – „Englar í mannsmynd!“

Perla klessti á bíl í Skeifunni – „Englar í mannsmynd!“