Arna Ósk Óskarsdóttir varð fyrir miklu ofbeldi af hendi starfsfólks á leikskólanum Hörðuvellir í Hafnarfirði á tíunda áratug síðustu aldar. Í viðtali við Fréttablaðið lýsir Arna Ósk því hvernig þetta ofbeldi hefur litað ævi hennar og hamlað henni við að setja mörk í samskiptum við aðra.
Mikið fjölmiðlamál varð vegna framgöngu starfsfólksins árið 1997 en sprengjan féll eftir að foreldri varð vitni að því að límt hafði verið fyrir munn tveggja ára barns. Fjölmörg dæmi voru um að börn á leikskólanum hefðu verið beitt miklu harðræði og viðgekkst ofbeldið í mörg ár. „Samkvæmt frásögnum barna voru krakkar sem þóttu of háværir og óþægir settir í barnastól og límt fyrir munninn á þeim með breiðu límbandi. Stundum hefðu þau verið óluð niður,“ segir í grein Fréttablaðsins.
Arna Ósk var bara lítið barn og hún hélt að starfsfólkið væri svona vont við hana af því hún hefði verið óþekk. Þess vegna sagði hún foreldrum sínum ekki frá ofbeldinu:
„Mér datt aldrei til hugar að segja foreldrum mínum hvað hafði skeð í leikskólanum. Ég trúði því auðvitað frá þessum konum sem áttu að vera þarna og vernda mig og ég leit upp til. Ég trúði því að þær væru að gera þetta af því ég átti það skilið,“ segir Arna Ósk í viðtali við Fréttablaðið.
Hún lýsir því sem situr mest í henni:
„Ég man ekki nákvæmlega hvað ég gerði af mér til þess að þær fóru að beita sér svona. Það sem situr mest í mér er þegar þær skömmuðu mig og tóku mig úr að ofan. Síðan settu þær mig í barnastól við matmálstímann á meðan hin börnin sátu á venjulegu borði. Börnin hlógu því þau vissu að þetta var aðferð sem notuð var til að skamma.“
„Það var aðallega þetta að þær skyldu taka mig úr að ofan sem situr mest í mér. Ég er tiltölulega nýhætt að vera rosalega vör um mig og spéhrædd,“ segir hún ennfremur.