Þann 25. maí á þessu ári barst lögreglu tilkynning um bílveltu í Ártúnsbrekku en þar hafði flutningabíl var ekið aftan á dráttarvél með þeim afleiðingum að dráttarvélin valt og ökumaður hennar varð fyrir lítilsháttar meiðslum.
Fljótlega kom í ljós að ökumaður flutningabílsins hafði ekið undir áhrifum amfetamíns og kókaíns auk þess sem hann var sviptur ökuleyfi. Þrátt fyrir þetta neitaði tryggingafélag hans, Sjóvá Almennar, bótaskyldu í málinu á þeim forsendum að dráttarvélinni hefði verið ekið í veg fyrir bílinn er skipt var um akrein. Byggir tryggingafélagið þar á framburði bílstjóra flutningabílsins.
Eigandi dráttarvélarinnar er fyrirtækið Garðlist og hefur það kært ákvörðun Sjóvár til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Ómar R. Valdimarsson lögmaður rekur málið fyrir hönd Garðlistar. DV er með kæru Garðlistar til úrskurðarnefndar undir höndum. Þar er bent á dómafordæmi í sambærilegum málum þar sem öll ábyrgð hefur lent á brotlegum ökumanni. Er gerð krafa um að nefndin snúi við ákvörðun Sjóvár um að hafna bótakröfu Garðlistar.
Ennfremur eru lögð fram gögn sem sýna að fíkniefni mældust í í blóði mannsins. Þá liggur fyrir að ökumaður dráttarvélarinnar frá Garðlist var alsgáður og segist í skýrslutöku hjá lögreglu hafa gætt ítrustu varúðar er hann skipti um akrein.
Ennfremur segir í kærunni:
„Að lokum skal þess getið að kærandi á afar bágt með að skilja, hvers vegna tryggingarfélagið ákveður að taka mark á yfirlýsingum ökumanns, sem sýnt hefur verið fram að hafi ekið undir
áhrifum vímuefna, próflaus, allt of hratt miðað við aðstæður, með ökurita í ólagi – allt í fullkominni andstæðu við ákvæði laga. Og líka þrátt fyrir að sönnunargögn málsins sýni með
ótvíræðum hætti, að niðurstaða Sjóvá sé röng.“