Hún sagði meðal annars frá því að í Maríupól hafi margir foreldrar neyðst til að láta börn sín í hendur ókunnugra og hafi drengirnir fengið bláa bakpoka með sér og stúlkurnar bleika. „Þau settu litla miða í þá og afhentu síðan ókunnugu fólki börnin til að tryggja öryggi þeirra. Þau sögðu „komið þeim bara í öryggi“ og sögðu börnunum að hvað sem gerðist skyldu þau halda fast í bakpokana sína,“ sagði hún.
„Í flóttamannamiðstöðinni ertu að faðma þessi börn og segja þeim að láta þig fá bakpokann, „láttu mig fá hann, opnum hann og sjáum hvað er í honum“. Hann segir „nei, mamma sagði mér að gera það ekki, mamma sagði mér að gera það ekki“ og „mun ég sjá mömmu aftur?“ Síðan opnar þú bakpokanna, svipað gerðist örugglega í síðari heimsstyrjöldinni, og þau höfðu skrifað smá skilaboð: mamma elskar þig, þetta er skírnarnafnið, þetta er fjölskyldunafnið, þetta eru skjölin hans, þetta er heimilisfangið og vinsamlegast tryggðu öryggi hans,“ sagði hún og bætti við: „Það er það sem ég vil gera fyrir úkraínsk börn, tryggja öryggi þeirra.“