fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fréttir

„Örvæntingar- og hatursfull afvegaleiðing frá óþægilegum sannleika sem þeir vilja fela fyrir öðrum“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 16. maí 2022 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Talskona og formaður Lífs án ofbeldis segja að meintir gerendur ofbeldis séu endurtekið settir í hlutverk fórnarlamba vegna skekkja í réttarhefðinni hér á landi. Þessar skekkjur geri meintum gerendum kleift að nota dómstóla gegn brotaþolum sínum svo sem með því að nota meiðyrðamál og kærur um rangar sakargiftir til að draga úr trúverðugleika þolenda. Eins líti dómstólar framhjá fyrri sögu um heimilisofbeldi í forsjár- og umgengnismálum og smætti ofbeldið niður í „erjur“ eða „togstreitu“.

Þetta kemur fram í grein sem þær Sigrún Sif Jóelsdóttir og Gabríela Bryndís Ernudóttir birtu hjá Vísi í dag.

„Fyrirlitning, mismunun og þöggun gegn þolendum kynbundins ofbeldis lifir góðu lífi í íslensku samfélagi.“

Þær rekja að um rótgróin vanda sé að ræða í samfélagi okkar og athuganir gefi til kynna að kynferðisbrot og líkamlegt ofbeldi gegn konum sé algengara á Íslandi en almennt í Evrópulöndum. Lagakerfið hér á landi viðhaldi einnig tortryggni í garð þeirra kvenna sem þolað hafa ofbeldið. Vísar þær í því sambandi til máls þeirra níu kvenna sem hafa kært íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna málsmeðferðar íslenska réttarkerfisins á kærum þeirra, en konurnar kærðu ofbeldisbrot, nauðganir og áreitni og telja að máli hafi verið felld niður vegna annmarka við rannsókn og sönnunarmats.

Rangsnúin fjandsemi réttarkerfisins

Sigrún og Gabríela nefna að „rangsnúin fjandsemi réttarkerfisins í garð mæðra sem lýsa ofbeldishegðun barnsfeðra sinna“ sé sérstaklega áberandi og afhjúpist við meðferð slíkra mála undirliggjandi mismuninn gegn konum.

„Í dómsmálum fjölskylduréttar sést greinilega hvernig orðalag er notað sem afsakar heimilisofbeldi og færir ábyrgð á ofbeldinu yfir á þolendur. „Stormasamt samband“, „erjur á milli foreldra“ og „togstreita á milli foreldra“ dregur upp ranga mynd af heimilisofbeldi sem deilu á milli jafningja og að ofbeldi sé afleiðing af gagnkvæmum samskiptum.“ 

Sigrún og Gabríela benda á að það sé staðreynd í heimilisofbeldismálum að þar sé oftast um að ræða ofbeldi maka eða fyrrum maka, sem í flestum tilvikum er karlmaður, þar sem annar aðili beitir hinn ofbeldi og börn oft þolendur á sama tíma. Þar með sé dómskerfið að taka þátt í kynbundnu ofbeldi með gerandanum þegar kemur að forsjár- og umgengnismálum þar sem lítið er gert úr ofbeldissögunni og hún afskrifuð sem „erjur“.

Meiðyrðamál notuð sem kúgunartæki

Þær gagnrýna einnig fordóma gegn þolendum ofbeldis sem þær segja þrífast innan lögmannastéttarinnar. Þar megi finna lögmenn sem viljandi spili inn á þessa fordóma og komist upp með siðferðislega vafasama hegðun án afleiðinga.

Í því samhengi vísar þær til Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns sem birti gögn úr sakamáli sem tengdist kæru sem lögð var fram gegn knattspyrnumanninum Kolbeini Sigþórssyni, en í gögnunum mátti finna brot úr skýrslutöku konunnar sem kærði, en Sigurður hafði enga aðkomu að málinu sem lögmaður. Konan kvartaði undan framkomu Sigurðar til úrskurðarnefnd lögmanna sem vísaði henni frá.

Þær nefna einnig meiðyrðamál, sem undanfarin ár hafa verið höfðum af meintum gerendum í garð þeirra kvenna sem hafa sakað þá um ofbeldi.

„Það er í dag orðin almenn vitneskja að meiðyrðamál eru oft notuð sem kúgunartæki af þeim sem vilja þagga niður í umræðunni um ofbeldi.“ 

Þar nefna Sigrún og Gabríela, án þess þó að nefna nöfn, mál Jóns Baldvins Hannibalssonar sem höfðaði meiðyrðamál gegn dóttur sinni Aldísi Schram, en Aldís hefur opinberlega sakað föður sinn um að hafa beitt sig kynferðisofbeldi þegar hún var barn.

„Sjö aðrar konur höfðu stigið fram undir nafni og sakað sama manninn um kynferðislega áreitni og 23 konur birt frásagnir sínar á vefsíðu MeToo hóps kvennanna. Stjórnmálamaðurinn hélt því ítrekað fram opinberlega að frásagnir allra kvennanna væru „órar úr sjúku hugarfari“ dóttur sinnar. Lögmaður þessa þjóðþekkta manns valdi að sækja meiðyrðamálið fyrir manninn og flytja með honum þessar söguskýringar fyrir dómi.“ 

Vekur upp óþægilegar spurningar um tilganginn

Annað dæmi sé mál Ingólfs Þórarinssonar „veðurguðs“ sem höfðaði meiðyrðamál gegn Sindra Þór Sigríðarsyni Hilmarssyni. Þar hafi lögmaður Ingólfs sérstaklega nefnt einn „gervi prófil“ sem hafi skrifað á þráð Sindra á Twitter um að hluti frásagna þeirra sem birtar voru um Ingólf hafi verið undir fölsku flaggi. Þar hafi lögmaðurinn skautað framhjá því að undir sama þræði hafi yfir 100 manns skrifað athugasemdir sem renni stoð undir þessar 32 frásagnir þolenda, sem stigu fram í skjóli nafnverndar.

Í framhaldinu hafi kona stigið fram undir nafnvernd og greint frá því að hafa kært Ingólf árið 2021 vegna líkamsárásar sem átti sér stað 2017.

„Trúbadorinn brást við þessu með því að birta opna færslu á samfélagsmiðlum ásamt mynd af tölvupóstsamskiptum frá árinu 2022, þar sem lögmaður hans fullyrðir að samkvæmt yfirliti úr málaskrá ríkislögreglustjóra hafi „engin kæra verið lögð fram er varðar ofbeldi eða kynferðisbrot. Punktur.“ 

Fjölmiðlar hafi gert sér mat úr þeirri færslu en í kjölfarið hafi samtökin Öfgar birt samantekt úr bókun lögreglu, með leyfi þolanda, sem staðfesti að umrædd kona hafi mætt í kærumóttöku lögreglu. Þetta hafi bent til þess að lögmaður Ingólfs hafi ekki farið með rétt mál.

„Ekki verður fullyrt út frá þessu hvort lögmaðurinn hafi gegn betri vitund gefið dómstólum rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir málsins og brotið þar með gegn siðareglum lögmanna, en birting á tölvupóstinum vekur upp óþægilegar spurningar um tilganginn.“ 

Draga úr trúverðugleika þolenda

Sigrún og Gabríela segja að lögmaður Ingólfs, sem er Auður Björg Jónsdóttir, hafi tekið að sér tvö önnur mál sem einnig veki athygli í þessu samhengi. Í öðru málinu hafi Auður lagt fram kæru fyrir hönd föður í miðju forsjármáli á hendur barnsmóður hans fyrir rangar sakargiftir.

„Maðurinn hafði fengið dóm fyrir líkamlegt ofbeldi gegn barni hennar og konan hafði einnig kært hann fyrir ofbeldi gegn sér.“ 

Þær segja að leiða megi að því líkur að þessi kæra hafi verið lögð fram til að draga úr trúverðugleika móður í forsjármálinu með því að „snúa við hlutverki geranda og þolanda, sem því miður virðist hafa borið árangur, þó að kæran um rangar sakargiftir hafi verið felld niður.“

Auður hafi notað sömu aðferð í öðru forsjármáli. Þá hafi móðir verið kærð fyrir ragnar sakargiftir á hendur barnsföður, sem þó hafði áður verið gert að sæta nálgunarbanni við fjölskylduna vegna ofbeldis, ógnana og eltihrellinga.

„Lögmaður föður sendi einnig tölvupóst á lögmann móður og dómkvaddan matsmann í forsjármálinu, með því sem lögmaðurinn vissi vel að var óstaðfest kjaftasaga, en var til þess fallin að draga úr trúverðugleika móður og barna.“ 

Þá hafi Auður sótt meiðyrðamál fyrir þann föður gegn ættingja móðurinnar sem lýsti yfir stuðningi við meinta þolendur í málinu. Það mál hafi faðirinn unnið og höfðað annað sambærilegt gegn öðrum ættingja sem dómstólar eigi eftir að taka fyrir.

Örvæntingar- og hatursfull afvegaleiðing

Sigrún og Gabríela minna á að hver lögmaður ráði því hvort hann taki að sér mál og hvernig hann ráðleggi skjólstæðingum sínum. Lögmenn séu því ekki hafnir yfir gagnrýni fyrir það hvernig þeir velja að haga störfum sínum fyrir þá sem sakaðir hafa verið um ofbeldi.

Þær segja að ofangreindar aðferðir lögmanna, málsóknir gerenda gegn þolendum, sé ekki til þess fallin að efla rétt og hrinda órétti.

„Það er örvæntingar- og hatursfull afvegaleiðing frá óþægilegum sannleika sem þeir vilja fela fyrir öðrum og ekki þurfa að horfast í augu við sjálfir. Afleiðingar af slíkri þöggun og ógn eru líklega mest sláandi þegar börnum er refsað í reynd fyrir að þögn þolenda ofbeldis sé rofin.“ 

Þessi mál velji lögmenn að taka að sér og sækja fyrir dómstólum.

„Að gera þá kröfu til lögmanna að þeir beri ábyrgð á sinni háttsemi, fylgi viðmiðum um siðferði sinnar stéttar og beri virðingu fyrir lífi þolenda ofbeldis er ekki krafa um sérstaka ívilnun frammi fyrir lögum. En það er krafa um að þær skekkjur í réttarhefðinni séu leiðréttar sem setja meinta gerendur ofbeldis endurtekið í hlutverk fórnarlambsins og gera þeim kleift að nota dómstóla sem vopn gegn brotaþolum sínum.“

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Ragnar fór úr rannsókn á ráni í mótmælin við Alþingi – „Ég get ekki bakkað úr svona aðstæðum og ég ætla ekki að skilja þá eftir“

Ragnar fór úr rannsókn á ráni í mótmælin við Alþingi – „Ég get ekki bakkað úr svona aðstæðum og ég ætla ekki að skilja þá eftir“
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Gagnrýnir Þorstein fyrir ummæli um verkakonu í frystihúsi – „En hvert skyldi nú sannleiksgildi þessara orða vera?“

Gagnrýnir Þorstein fyrir ummæli um verkakonu í frystihúsi – „En hvert skyldi nú sannleiksgildi þessara orða vera?“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Þetta eru helstu leikendurnir í baráttunni um framtíð Sýrlands

Þetta eru helstu leikendurnir í baráttunni um framtíð Sýrlands
Fréttir
Í gær

Eldri borgari vann 70 milljónir og nýbakaður tvíburapabbi 35 milljónir í Happdrætti Háskólans

Eldri borgari vann 70 milljónir og nýbakaður tvíburapabbi 35 milljónir í Happdrætti Háskólans
Fréttir
Í gær

Var með mikið magn af OxyContin innvortis

Var með mikið magn af OxyContin innvortis
Fréttir
Í gær

Efling boðar til aðgerða gegn 100 veitingastöðum

Efling boðar til aðgerða gegn 100 veitingastöðum
Fréttir
Í gær

Vodafone byrjar að rukka mánaðargjöld fyrir netföng

Vodafone byrjar að rukka mánaðargjöld fyrir netföng
Fréttir
Í gær

Drápshundarnir í Langholtshverfi hafa drepið ketti og ráðist á fólk – „Hundarnir endurspegla eigendurna“

Drápshundarnir í Langholtshverfi hafa drepið ketti og ráðist á fólk – „Hundarnir endurspegla eigendurna“