fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Svefnvana íbúar miðborgarinnar búnir að fá nóg – „Það var engin grenndarkynning og það var ekkert talað við íbúana“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 6. maí 2022 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Andóf íbúa og annarra hagsmunaaðila í miðbænum gegn hávaða frá næturlífi.“ Svona er Facebook-síðunni „Kjósum hávaðann burt“ lýst. Þar má finna harða gagnrýni á að íbúar í miðborginni, nærri Laugavegi, fái ekki svefnfrið á nóttunni vegna hávaða frá skemmtanalífinu.

Í dag var birt á síðunni myndband þar sem íbúar lýsa þeim áhrifum sem næturlífið hefur á þau. Í texta með myndbandinu stendur:

„Stutt heimildarmynd um næturlífið í RVK. Íbúar í hjarta miðbæjarins tjá sig um næturlífið og þau skelfilegu áhrif sem það hefur haft á svefnfrið þeirra og lífsgæði svo árum skiptir; yfirgengilegan hávaða frá diskóbörunum og öll skrílslætin og sóðaskapinn sem þrífst í kringum þá.“

Skemmtistaðir í rúmlega 100 ára timburhúsum með slæmri einangrun

Benoný Ægisson er íbúi og húseigandi við Skólavörðustíg. Hann stendur í myndbandinu fyrir framan skemmtistaðinn Kofan, og bendir á að húsið sem hýsir skemmtistaðinn hafi verið byggt í kringum árið 1900, þá ekki með það í huga að þar yrði spiluð diskótónlist.

Mörg dæmi séu um að skemmtistaðir séu reknir í sambærilegum húsum sem séu byggð á kjöllurum sem eru hlaðnir úr holtagrjóti, síðan byggt með timbri og einangrað með sagi, spón eða álíka – en þau hús haldi engu hljóði. Því ætti ekki að leyfa skemmtistaði í húsunum.

Benoný segir að það séu bara síðustu 20 árin sem á þessu svæði hafi verið eitthvað næturlíf að gagni.

„Þessi hús eru líka kannski svolítið dæmigerð fyrir þá breytingu sem hefur orðið í miðbænum,“ segir Benoný og rekur að í húsinu þar sem Kofinn er nú til húsa hafi áður verið kjötbúð. Þar sem veitinga- og skemmtistaðurinn Sólon er hafi áður verið málningarvöruverslun. Prikið hafi verið kaffihús sem lokaði klukkan 18:00. Danski barinn hafi líka verið málningarverslun. Dillon hafi verið gæludýraverslun.

Hótelin lendi í að gestir forði sér vegna hávaða

Matthildur Skúladóttir, íbúi á Skólavörðustíg, segir að bæta þurfi aðgengi fólks að miðborginni. Það þurfi að sjá fólki fyrir nægum bílastæðum.

Vigdís Björnsdóttir, íbúi við Skólavörðustíg, segist eiga þá ósk að miðbærinn sé fyrir alla. Þar verði hægt að finna fjölbreytni í mat og drykk, krár sem sómi sé af og menningu sem höfði til allra.

„Og einnig að íbúar og ferðamenn í miðbænum fái frið á nóttunni til að sofa og hvílast, alveg eins og annað fólk í öðrum hverfum borgarinnar.“ 

Holberg Másson, íbúi á Skólavörðustíg, segir gaman að búa í miðbænum „en það er fáránlegt að vera að upplifa það hvað það er mikill hávaði á nóttunni sem er alveg út fyrir öll endimörk. Það er ekki hægt að sofa, hótelin eru að lenda í því að gestir eru að flýja. Þeir sem eiga heima hérna eru að forða sér í burtu. Það er svo margt sem er hægt að gera betur.“

Holberg segir að núverandi meirihluti borgarinnar sjái ekki að hægt sé að gera þetta betur og að þéttingin í miðbænum sé að valda vandræðum.

„Það er enginn áhugi hjá Reykjavíkurborg að lega þetta. Þetta er ótækt.“ 

Gengið inn á skemmtistað frá stigagangi fjölbýlishúss

Ármann Skæringsson, íbúi og fasteignaeigandi við Skólavörðustíg, segir að borgaryfirvöld þurfi að hugsa áður en gefin séu út leyfi fyrir bari og skemmtistaði.

„Það er náttúrulega mjög skrítið að í blönduðu húsnæði þar sem eru íbúðir og fyrirtæki á jarðhæð og var kannski í byrjun hárgreiðslustofa eða blómabúð alla tíð og íbúðir uppi að svo opni allt í einu bar sem er opinn til 01:00 á nóttunni og auglýsi plötusnúð og nýjar græjur sem er mjög mikil breyting fyrir íbúa sem eru vanir að hafa blómabúð og svo allt í einu er kominn bar í sama húsnæði og kannski svefnherbergin beint fyrir ofan þetta húsnæði.“ 

Ármann segir að eignarétturinn ætti að ganga í báðar áttir, að einnig sé tekið tillit til þeirra íbúa sem búi í húsum áður en hafinn er þar rekstur skemmtistaða.

„Nú er t.d. bar hérna sem er með sama inngang og íbúðir svo það er bjórlykt á stigaganginum upp í íbúðirnar Það er alveg galið að borgin leyfi þetta og gefi út leyfi fyrir bari inn í húsum sem eru með íbúðum í.“ 

Ármann segir að hann búi í miðbænum og vilji alveg hávaða og mikið mannlíf, en það verði að vera svefnfriður. Skemmtistaðir og klúbbar gætu frekar verið á iðnaðarsvæðum þar sem fólk býr ekki og geti þá verið opnir fram eftir nóttu.

Engin grenndarkynning

Hildur Bolladóttir er íbúi, húseigandi og kaupmaður við Skólavörðustíg og hefur búið í miðborginni í um 30 ár.

Hún segir að eftir að laugarvegi var lokað fyrir umferð séu Íslendingar hættir að koma í bæinn. Nú séu það fyrst og fremst ferðamenn. Telur hún það skýrast af því að erfitt sé að koma í borgina og versla, þar séu fá stæði og aðgengi slæmt. Þess vegna séu svo margar verslanir farnar af svæðinu.

„Svo er það hávaðinn. Barirnir spretta hérna upp. Allt í kring. Opið á sumum þeirra til hálf fimm á morgnanna. Hér er kominn bar beint á móti húsinu mínu og í fjölbýlishúsi þar sem eru 6 íbúðir og 15 íbúðir til hliðar. Og það var engin grenndarkynning og það var ekkert talað við íbúana.“

Hildur segir að þegar hún vildi breikka svalir sínar hafi þurft grenndarkynningu en þegar opna á veitingastað sem hefur opið til klukkan 01 megi það án nokkurrar kynningar.

Nú sé komið leyfi fyrir bar í bakgarðinum hjá henni og þar eigi að vera opið lengi. Þessi staður sé beint á móti Kaffibarnum sem hafi truflað hana í um 20 ár. Hótel á svæðinu hafi þurft að endurgreiða gestum vegna hávaða frá Kaffi barnum.

Í lok myndbandsins segir:

„Ótrúlegt hvernig búið er að rústa hjarta miðbæjarins. Og svona er þetta fram undir morgun til hálf fimm og svo ef veður er gott þá halda menn áfram alveg til sjö eða átta á morgnanna. „

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Í gær

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala
Fréttir
Í gær

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“
Fréttir
Í gær

Tveir nýir meðeigendur hjá Expectus

Tveir nýir meðeigendur hjá Expectus