Hópur fólks fékk í dag tilkynningu í síma sinn um að það hafi verið útsett fyrir Covid-19 smiti og ætti að fara í sóttkví. Þetta varð vegna villu í Rakning C-19 appinu.
Haft verður samband við þá sem skráðu sig í smitgát að óþörfu en búið er að tryggja að fleiri muni ekki fá tilkynningu að óþörfu. Embætti landlæknis vinnur nú að athugun málsins ásamt þróunaraðilum appsins.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Embætti landlæknis. Ekki er vitað hversu margir urðu fyrir barðinu á þessari villu en ljóst er að einhverjir hafa orðið fyrir fjárhagstjóni vegna missis úr vinnu eða við breytingu ferðaplana.