Kona á fimmtugsaldri hefur verið dæmd í tíu mánaða fangelsi fyrir ítrekuð fjársvik og brot á umferðalögum. Dómur þess efnis var kveðin upp ú Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni.
Brotin áttu sér stað á mánaðartímabili í apríl og maí í fyrra . Konan heimsótti hinar ýmsu verslanir Krónunnar á höfuðborgarsvæðinu og tók út vörur á reikning Eimskip hf. en með einhverjum hætti hafði hún komist yfir nauðsynlegar upplýsingar til þess.
Alls var um sjö heimsóknir að ræða og tók konan út vörur að verðmæti rúmlega 360 þúsund krónur.
Þá leigði hún sér bíl í fjóra daga á sama tímbili hjá Bílaleigu Akureyrar og skuldfærði leiguna á reikning útgerðarfyrirtækisins Brim hf.
Að auki var hún tekin fyrir fjögur umferðalagabrot á tímabilinu en hún hafði ekki ökuréttindi og var í þremur tilvikum undir áhrifum fíkniefna við stýri.
Í dómnum kemur fram að sakaferill konunnar nær til ársins 1993 og hefur hún hlotið þrettán refsidóma, flesta vegna skjalafals og fjársvika, en einnig vegna annarra brota á hegningarlögum.
Auk þess að vera dæmd í tíu mánaða óskilorðsbundið fangelsi var konan áréttað að konan yrði svipt ökuréttindum ævilangt. Þá var henni gert að greiða lögmanni sínum 256 þúsund krónur í málsvarnarlaun og 352.479 krónur í annan sakarkostnað.